Birta er bráðfyndin og hjartfólgin saga um íslenskan raunveruleika sem margir þekkja og tengja við. Sagan gerist í neðra Breiðholti og fjallar um Birtu sem er 11 ára og alin upp hjá einstæðri móður. Móðir hennar vinnur myrkanna á milli til að láta enda ná saman en fyrir slysni heyrir Birta móður sína segja í símann að hún hafi ekki efni á að halda jól. Birta tekur þessum fréttum bókstaflega og ákveður að bjarga jólunum fyrir mömmu og litlu systur sína Kötu sem er sex ára.
Birta verður frumsýnd í kvikmyndahúsum Senu 5. nóvember og kemur í Sjónvarp Símans Premium 25. nóvember.
Leikstjóri er Bragi Þór Hinriksson en saga og handrit er eftir Helgu Arnardóttur. Birta er fyrsta leikna íslenska barna-og fjölskyldumyndin frá því Víti í Vestmannaeyjum kom út 2018 í sömu leikstjórn.
Með aðalhlutverk fara Kristín Erla Pétursdóttir, Salka Sól Eyfeld og Margrét Júlía Reynisdóttir. Auk þess fara stórleikarar með önnur aukahlutverk í myndinni á borð við Margréti Ákadóttur, Harald G. Haralds, Herra Hnetusmjör, Helgu Brögu Jónsdóttur, Karl Ágúst Úlfsson, Bjarna Snæbjörnsson, Elmu Lísu Gunnarsdóttir, Álfrúnu Örnólfsdóttur, Kristin Óla Haraldsson eða Króla, Hannes Óla Ágústsson og Sigurð Karlsson svo einhverjir séu nefndir.