„Ég held að við séum á hárréttum tíma að frumsýna lokaútgáfuna af sýningunni. Eftir margra ára hægmallandi ferli hefur samfélagið tekið miklum breytingum og fleiri raddir orðnar háværar sem krefjast viðurkenningar, virðingar og jafnréttis alls fólks og að við brjótum múra kúgunarkerfis sem hefur stýrt okkur alltof lengi. Akkúrat núna kraumar allt þetta í samfélaginu og mikil átök eiga sér stað milli fólks og ólíkra hópa. Þess vegna á sýningin mikið erindi því hún skoðar þetta viðfangsefni frá ólíkum sjónarhornum og styðst við raunverulegar reynslur fólks sem flestir ættu að geta tengt við og gengið út með skemmtilegar vangaveltur og tilfinningar,“ segir Bergdís Júlía Jóhannsdóttir, ein leikkvenna sýningarinnar og ein stofnenda Spindrift Theatre.
Konur kryfja karlmennsku á sviði
Leikhópurinn Spindrift Theatre verður með tvær sýningar á leikverkinu THEM sunnudaginn 5. desember næstkomandi. Um er að ræða sviðsverk í vinnslu sem fjallar um karlmennsku. Það eru eingöngu konur sem koma að verkinu, en þær máta sig í hlutverk karlmanna út frá viðtölum sem þær hafa tekið við karlmenn á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Verkið er í senn alvarlegt, sorglegt og sprenghlægilegt.
Viðfangsefni sýningarinnar á vel við samfélagið á þessari stundu. Unnur Elísabet Gunnarsdóttir leikstýrir sýningunni og segir að það sé „ofsalega gaman að fá að leikstýra þessum flotta hópi af leikkonum og kljást við þetta eldheita viðfangsefni sem karlmennskan er. Sýningin er byggð á viðtölum við karlmenn og er bæði falleg, einlæg og átakanleg.“
Spindrift Theatre er norrænn leiklistarhópur kvenna frá Íslandi og Finnlandi, og fara þær Anna Korolainen Crevier og Marjo Lahti frá Finnlandi með hlutverk í sýningunni, ásamt hinum íslensku leikkonum Bergdísi Júlíu Jóhannsdóttur og Tinnu Þorvalds Önnudóttur.
Hugmyndin fæddist fyrir þónokkrum árum og hefur verkið verið í vinnslu frá árinu 2016. Loks er komið að því að ljúka að mestu við verkið, en eiginlega Íslandsfrumsýningin verður þó ekki fyrr en næsta sumar á Reykjavík Fringe hátíðinni. Einnig hafa hátíðir erlendis sýnt verkinu áhuga, og verður verkið m.a. sýnt í London á norrænni hátíð í apríl, en verkið fer fram á ensku.
Heimsfaraldur, ásamt þónokkrum barnsburðum, setti svip sinn á æfingar en það átti að ljúka við verkið árið 2020. Þess í stað var búið til myndbandsverk sem var sýnt á fyrrnefndri Reykjavík Fringe hátíð þar sem leikhópurinn vann til Nordic Fringe Network verðlauna, sem gerir þeim kleift að ferðast með verkið á fjölmargar Fringe hátíðir á Norðurlöndunum, þegar það verður fullklárað.
Tvær sýningar á verki í vinnslu fara fram í Dansverkstæðinu sunnudagskvöldið 5. desember næstkomandi, kl 18 og 21, en sýningin er um 70 mínútur að lengd. Miðaverði er haldið í lágmarki og kostar eingöngu 1900 krónur inn. Ekki verða fleiri en 50 manns í sýningarrýminu og því ekki þörf á að sýna neikvætt hraðpróf, en grímuskylda er þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra millibil milli sæta. Það er 12 ára aldurstakmark á sýninguna, sem varar við ofbeldi og ljótu orðbragði sem kemur fram í verkinu.
Miðasala er hafin á TIX.
Frekari upplýsingar um verkið má finna á spindrift.team/them og í facebook viðburði.