Gróðurhúsið er nýr og spennandi áfangastaður sem hefur opnað í Hveragerði. Fjölbreytt starfsemi er í byggingunni, sem höfðar bæði til Íslendinga og erlendra ferðamanna en þar er að finna hótel, mathöll, bar, verslanir, kaffihús, matarmarkað og ísbúð.
Við uppbyggingu hefur sjálfbærni verið höfð að leiðarljósi og nafnið því vel við hæfi enda Hveragerði þekkt fyrir sín fjölmörgu gróðurhús. Markmiðið er að að gestir geti staldrað við í fallegu umhverfi og notið alls þess sem Gróðurhúsið hefur uppá að bjóða. Hálfdan Pedersen sér um heildarhönnun og útlit Gróðurhússins en samvinna er með Flóru garðyrkjustöð um ráðgjöf varðandi gróður hússins sem að sjálfsögðu er í aðalhlutverki í sjálfum Blómabænum.
Í suðurenda byggingarinnar er mathöllin með fimm frábærum veitingastöðum; Hipstur, Yuzu burgers, Wok-on, Taco vagninn og Pönk Fried Chicken (PFC). Í glerskálanum til suðurs er svo Nýlendubar Kormáks og Skjaldar en þar er hægt að upplifa suðræna stemningu og skála í svalandi drykk undir pálmatré. Barinn nær einnig til setustofu annarrar hæðar og þaksvala með frábæru útsýni til suðurs.
Í norðurenda byggingarinnar hafa gamalgróin vörumerki úr höfuðborginni komið sér fyrir s.s. Epal, Herrafataverslun Kormáks & Skjaldar og Álafoss. Einnig er þar starfrækt ný sælkeraverslun og matarmarkaður sem ber nafnið Me&Mu en þar er áherslan á smáframleiðendur og vörur beint úr héraði. Ísbúðin Bongo býður uppá nýja og skemmtilega nálgun í samvinnu við Kjörís. Kaffihúsið býður svo uppá léttar veitingar, girnilegan morgunverð og léttar veitingar ásamt hinum vinsælu Macai skálum. Samstarf er við Te&Kaffi um kaffidrykki í kaffihúsinu og á eins hægt að gæða sér á þeirra frábæra kaffi á herbergjum hótelsins.
The Greenhouse Hotel er lífstílshótel með áherslu á hágæða herbergi ásamt skemmtilegri stemningu og upplifun gesta. Hótelið er staðsett á efri hæðum byggingarinnar og hafa hótelgestir aðgang að norðursvölum en þar mun opna spa svæði sem tilvalið er til slökunar. Lagt er upp með að gestir geti slakað vel á og náð í alla sína þjónustu sem þeir þurfa innan Gróðurhússins. Þeir sem kjósa geta síðan notið fjölbreyttrar útivistar sem er að finna í bakgarðinum í Reykjadal en þar er heiti lækurinn og Hengillinn vinsælir áningastaðir. Margir fara í göngur, fjallahjól og útreiðartúra ásamt því að veiða í ánni og spila golf í sveitinni. Það er síðan margt í boði í nágrenninu og vinnur Gróðurhúsið náið með ferðaþjónustuaðilum í nærumhverfi sínu.