Skemmtanalífið (e. djammið svokallaða) í miðborginni gæti verið að taka breytingum í kjölfar tveggja ára tímabils af síbreytilegum afgreiðslutíma. Aðsóknin virðist dreifast meira því sumir byrja fyrr að skemmta sér, eins og var gert á tímum faraldursins, en aðrir virðast detta aftur í sama gamla farið og fara seint út að skemmta sér.
Morgunblaðið greinir frá þessu og segir þar Kormákur Geirharðsson, sem á og rekur Ölstofu Kormáks og Skjaldar, skemmtanalífið á góðri leið með að renna í sinn farveg að nýju. Fólk hafi þó ekki sama úthald og áður.
„Menn eru farnir að geispa fljótlega upp úr eitt og komnir í vatnið hálfþrjú,“ segir Kormákur um stemningu síðustu helgar.
„En kannski með hækkandi sól þá færist þetta í gamla horfið. Ef við fáum gott sumar held ég að orkan fari aftur upp. Í mínum huga eiga menn eftir að vera með mismunandi afgreiðslutíma, eftir því hvernig kúnnahópurinn er samansettur. Fjölbreytni er af hinu góða.“
Geoffrey Huntingdon-Williams, eigandi Priksins, er sammála Kormáki. „Heilt yfir sjáum við að þessi Covid-stíll af skemmtanalífi, þar sem fólk mætti snemma í miðborgina, hann hefur alveg haldist,“ sagði hann.
Geoffrey segir ekki eins marga mæta á sama tíma og gekk og gerðist. „Þetta er dreifðara en það var áður. Það er einhver breyting sem hefur átt sér stað og hún er af hinu góða.“