Það er alltaf gaman að heimsækja Lissabon, höfuðborg Portúgals, en þar er aragrúa af spennandi veitingastöðum, börum og kaffihúsum að finna. Hér tökum við saman nokkra staði sem okkur finnst vert að kíkja á þegar borgin er heimsótt.
Park
Park er skemmtilegur þakbar á sjöttu hæð bílastæðahúss, þar ríkir afslappað og þægilegt andrúmsloft. Þangað er gaman að koma og gæða sér á kokteilum og horfa á sólina setjast. Það getur verið svolítið snúið að finna staðinn þar sem hann er frekar falinn enda á heldur óvenjulegum stað en það er vel þess virði að hafa fyrir því að finna Park. Útsýnið er einstakt og svæðið í heild sinni notalegt og heillandi, skreytt með grænum plöntum og látlausum útihúsgögnum. Drykkirnir eru á viðráðanlegu verði. Það er ekki hægt að bóka borð á Park þannig að það er mælt með því að mæta tímanlega til að fá gott sæti á þessum fremur vinsæla stað.
Facebook.com/parklisboaofficial
Sky Bar
Sky Bar er annar þakbar sem óhætt er að mæla með en þessi er á níundu hæð á hóteli sem heitir Tivoli. Hér er mikil áhersla lögð á vandaða kokteila. Þetta er nútímalegur og smart bar með frábæru útsýni yfir borgina. Þægileg sæti, bæði sófar og barstólar, eru á svæðinu og boðið er upp á flotta kokteila, bjór á dælu og kampa- og freyðivín sem og smárétti sem gaman er að deila. Á Sky bar eru gjarnan plötusnúðar og skemmtiatriði. Afslappað andrúmsloft er á staðnum en þó er hann í fínni kantinum þar sem ætlast er til að fólk sé snyrtilega til fara, strandfatnaður er ekki leyfður.
Time Out Market
Time Out matarmarkaðurinn er skemmtilegur áfangastaður fyrir sælkera, þarna er hægt að finna ósvikinn portúgalskan mat í bland við spennandi mat frá öðrum heimshonum. Markaðurinn er vinsæll meðal heimamanna og ferðamanna og því er ávallt mikið líf og fjör á Time Out. Mikil fjölbreytni einkennir matarúrvalið og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi hérna, þetta frábær viðkomustaður þegar ferðast er í hóp.
LX Factory
Það er vel þess virði að taka sér tíma í að rölta á Lx Factory sem er skemmtilegt svæði þar sem þú finnur alls kyns skemmtilega veitingastaði, bókabúðir, sýningarrými, kaffihús og krúttlegar verslanir svo nokkur dæmi séu tekin. Eins og nafnið Lx Factory gefur til kynna þá voru áður fyrr reknar verksmiðjur í þessum húsakynnum og seinna prentsmiðjur. Húsin stóðu svo auð í langan tíma, allt til ársins 2008 en þá var svæðið tekið í gegn og þá myndaðist sú skemmtilega stemning sem ríkir í dag. Nú er fjölbreyttur rekstur í þessum kjarna og mikil gróska þar sem margir listamenn og skapandi fólk eru með aðstöðu á svæðinu. Það er gaman að rölta um Lx Facroty og sjá öll götulistaverkin sem prýða húsin að utan.
Ler Devagar
Þessi bókabúð er hluti af Lx Factory-kjarnanum, hún er einstaklega flott og gaman er að skoða hana. Bækur upp um alla veggi og gamlar prentvélar setja svip sinn á rýmið. Hjólið sem hangir úr loftinu er eftir listamanninn Pietro Proserpio og fangar augað um leið og gengið er inn í rýmið. Innan bókabúðarinnar er svo lítið kaffihús. Stundum eru haldnir tónleikar og aðrir menningarviðburðir á Ler Devagar.
Village Underground
Þetta er óvenjulegur og skemmtilegur staður sem gaman að er setjast niður á og njóta drykkjar á góðviðrisdögum. Það er óhætt að segja að húsnæðið sé óhefðbundið en það er samsett úr 14 gámum og tveimur gömlum rútum, þarna hafa skapandi einstaklingar aðstöðu og halda oft menningarviðburði. Bar og kaffihús eru á svæðinu þar sem boðið er upp á drykki og léttar veitingar. Village Underground er skammt frá Lx Factory-kjarnanum.
Prado
Á Prado er mikil áhersla lögð á að nota besta hráefnið sem völ er á, sama hvort um sjávarfang, grænmeti eða kjöt er að ræða. Matseðillinn er árstíðabundinn og síbreytilegur eftir því hvaða hráefni fæst hverju sinni. Kokkar Prado nota ávallt ferskt hráefni sem oftar en ekki er lífrænt ræktað. Í takti við matseðilinn þá einkennist vínúrvalið á Prado af lífrænum og bíódýnamískum náttúruvínum. Hér færðu góðan mat í björtu og fallegu umhverfi.
Tvö krúttleg kaffihús
Heim Café
Heim Café er notalegt og vinsælt kaffihús, hingað kemur fólk gjarnan seinnipartinn með tölvurnar sínar til að vinna og gæða sér á góðu kaffi en fyrripart dags er vinsælt að fá sér bröns og morgunmat á Heim. Það er oft mikið að gera á þarna og því má reikna með að þurfa að bíða eitthvað eftir borði. Eigendur Heim er úkraínskt par sem hefur rekið þennan hlýlega stað í rúm fimm ár með góðum árangri. Þau tóku rýmið í gegn á sínum tíma og smíðuðu mörg húsgögnin sjálf, útkoman sérlega vel heppnuð.
Hello, Kristof
Eigandi Hello, Kristof er grafískur hönnuður sem ákvað að opna þetta skemmtilega kaffihús þegar honum fannst vanta notalegt rými þar sem hægt væri að mæta með tölvuna sína og vinna, lesa bækur og slaka á. Gott og vandað kaffi er í aðalhlutverki á Hello, Kristof en þar er líka gott úrval fjölbreyttra tímarita sem hægt er að glugga í með kaffinu.