Parið Erla Rut Haraldsdóttir og Smári Páll Svavarsson eiga þá ósk að verða foreldrar. Óskin hefur þó ekki orðið að veruleika með hefðbundnum hætti og eftir sex árangurslausar frjósemismeðferðir ákváðu þau að leita til sérfræðinga á Spáni. Erla segist vongóð um að draumurinn rætist en ferlið taki vissulega á andlega og fjárhagslega.
„Ég hef alla tíð verið barnagæla og ætlaði alltaf að eiga börn. Svo bara hverfur tíminn og manni finnst maður aldrei orðinn fullorðinn, fyrir utan að finna ekki manninn sem ég vildi eiga börn með,“ segir Erla.
„Ég fór ekki að hugsa um barneignir fyrr en 38 ára, hvaða möguleikar væru í stöðunni og hvort ég gæti fryst egg.“
Þá var Erla einhleyp, en hún og Smári kynntust í byrjun árs 2018 á Tinder eins og algengt er hjá pörum nútímans. „Ég var þó ekki alveg á því að hitta einhvern gaur. Síðan hittumst við bara óvænt og eftir það var ekki aftur snúið.“ Eftir að hafa deitað í ár ákváðu þau að setja meiri alvöru í sambandið og flutti Smári inn til Erlu í lok sumars 2019.
Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga
„Ferlið að eignast barn byrjaði bara á venjulega mátann, með heimaleikfimi,“ segir Erla og hlær þar sem við sitjum á notalegu heimili þeirra Smára í miðbænum. Karma eða vargurinn eins og hún kallar hann, hundurinn þeirra af malamute-tegund hefur sæst við heimsóknina og lagt sig við fætur okkar. „Heimaleikfimin skilaði hins vegar ekki árangri þannig að ég fór í rannsóknir til að vita hvort ég sé frjó, á egglos sér stað? Ég er bara með einn eggjastokk, sá hægri var tekinn þegar ég var 25 ára. Ég var með svokallaðan tvíburabróður og hafði verið með hann lengi, góðkynja æxli sem maður fæðist með eða er utanlegsfóstur og stærðin var orðin eins og tennisbolti. Ég kynnti mér hvort þetta myndi hafa einhver áhrif, en svo var ekki, hinn eggjastokkurinn tók bara við. Það er magnað að maður fæðist með ákveðinn fjölda af eggjum í hvorum eggjastokki og síðan fara þeir til skiptis á blæðingar.
Ég missti úr einar blæðingar og þessi eini hefur farið á blæðingar mánaðarlega síðan hinn var tekinn. Að ég hafi enn þá egg finnst mér ótrúlegt,“ segir Erla og segir horft til baka að kannski hefði hún átt að hugsa málið fyrr. Á þeim tíma sem eggjastokkurinn var tekinn og þangað til hún kynntist Smára var hins vegar ekki í boði að frysta egg. „Það þurfti að frjóvga þau svo ég gæti geymt þau. Annars hefði ég átt 20 fín egg sem við Smári gætum notað. Ég er mjög þakklát að hafa enn þá egg.“
Texti: Ragna Gestsdóttir
Myndir: Hallur Karlsson