Auglýsing

„Svo lengi lærir sem lifir“

Á næstum hverjum degi hugsa ég með mér hversu magnað það sé hvað tíminn líður hratt. Júní er að verða hálfnaður og fyrr en varir verður komið haust. Án gríns, enda finnst mér haustið eiginlega byrja strax að verslunarmannahelgi lokinni, í byrjun ágúst. Það er líka auðvelt að gleyma sér í því sem maður er að fást við. Mér finnst alla vega auðvelt að gleyma mér í vinnu, og er til dæmis að skrifa þessar línur á sunnudegi þegar ég á að vera í helgarfríi. Vinnan mín er samt þannig að maður er eiginlega alltaf í vinnunni, því allt í kring eru hugmyndir að greinum og viðmælendum.

Á morgun byrja ég í nokkurra daga sumarfríi og ætla að skjótast út á land en ég er nú samt búin að láta samstarfsfólk mitt vita að ég taki tölvuna með mér, „bara svona til öryggis ef allt skyldi fara á hvolf“ sem ég veit reyndar að engin hætta er á en samt, maður tryggir ekki eftir á, er það? Ekki nóg með það, heldur er ég líka búin að hlaða batteríið í myndavélina og er að hlaða aukabatteríið ef ég skyldi nú rekast á skemmtilegt myndefni fyrir Vikuna. Auðvitað hef ég líka upptökutækið mitt meðferðis því það er líka aldrei að vita nema maður lendi á spjalli við einhvern sem hefur frá einhverju skemmtilegu og fræðandi að segja. Núna geri ég mér grein fyrir því að auðvitað er þetta ekkert alveg í lagi. Þegar maður fer í frí, þá bara fer maður í frí! En einhvern veginn er það stundum hægara sagt en gert. Sérstaklega þegar manni finnst gaman að og í vinnunni. Þetta er samt rugl.

„Ég er búin að vinna margt frá mér,“ segir Linda Rós Haukdal í forsíðuviðtali þessarar Viku. „Ég er til dæmis búin að vinna frá mér sambönd og barneignir, gleymdi mér bara í vinnunni því það var og er svo gaman. Hefði ég vitað þá það sem ég veit í dag hefði ég gefið mér meiri tíma fyrir sjálfa mig.“ Linda er ein af þessum manneskjum sem er alltaf með marga bolta á lofti og hefur viljað hafa nóg að gera. Draumurinn hennar var ekki endilega að vinna út í eitt og ná varla að anda stundum fyrir annríki. Draumur hennar hefur alltaf verið að eignast barn. Það hefur því miður ekki gengið en Linda heldur enn í vonina og vonast eftir kraftaverki. Hún vinnur enn þá mikið en nú passar hún sig á því að taka sér frí reglulega til að hlaða batteríin. Það er líka sérlega mikilvægt fyrir hana þar sem hún komst að því fyrir ekki svo löngu síðan að hún er með ólæknandi sjúkdóm sem hægt er að halda niðri með því m.a. að sofa nóg og ná góðri hvíld.

Svo lengi lærir sem lifir og það er aldrei of seint að taka upp nýjar venjur. Til dæmis með því að hætta að borða hádegismatinn við skrifborðið í vinnunni, heldur gefa sér tíma til að njóta hans frammi á kaffistofu. Eða leyfa sér bara að skilja tölvuna eftir heima þegar maður fer í ferðalag, vitandi það að frábæra samstarfsfólkið manns reddar því sem mögulega gæti komið upp. Á dánarbeðinum iðrast ábyggilega enginn þess að hafa ekki unnið meira.  „Slæmu fréttirnar eru þær að tíminn flýgur. Góðu fréttirnar eru þær að þú ert flugmaðurinn,“ sagði Michael Altshuler. Nú ætla ég að setja punkt á eftir efninu og fara í frí.

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing