Steinunn Þórðardóttir er formaður Læknafélags Íslands og önnur konan til að gegna því starfi. Hún segir starf lækna líklega aldrei hafa verið jafnflókið og krefjandi og nú, þar komi til væntingar almennings um skjótvirkar lausnir en á sama tíma sé starfsumhverfi lækna gríðarlega erfitt vegna manneklu. Við þetta bætist að umræða í fjölmiðlum sé oft óvægin og einhliða sem skapi óöryggi hjá almenningi og heilbrigðisstarfsfólki.
Steinunn er fædd og uppalin í Fossvoginum í Reykjavík. Æskuheimilið var menningarheimili þar sem myndlist, tónlist og saga voru í öndvegi og hún lærði sjálf á píanó í tíu ár.
Steinunn er öldrunarlæknir, yfirlæknir heilabilunardeildar á Landakoti, og ákvað snemma að verða læknir og sér ekki eftir því, segist líka vera alin upp af gamla skólanum, að maður velji sér sína braut og gefi sig heilshugar í hana.
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að feta þessa braut? „Ég held að það hafi verið sterk fyrirmynd í pabba sem er læknir. Ég er eina dóttirin og við eigum þetta feðginasamband sem hefur alltaf verið afar gott og ég lít mjög upp til hans. Hann átti frábæran feril og leið greinilega vel í sínu starfi. Hann var klínískur læknir, kennari, vísindamaður og stjórnandi, þannig að ég sá að það er hægt að gera svo margt sem læknir og beita sér á ólíkum sviðum,“ segir Steinunn um föður sinn Þórð Harðarson, yfirlækni og prófessor.
„Ég hef alltaf verið áhugasöm um fólk, að vera í samskiptum við það og viljað koma að gagni. Læknisstarfið er fjölbreytt og gefandi og námið skemmtilegt þótt það sé mjög krefjandi, en ekki síður vísindin, þessi leit að nýjum sannleika er rosalega spennandi. Þar kemur sköpunarkrafturinn inn. Þegar við vinnum þessi hefðbundnu læknisstörf þá erum við að fylgja viðurkenndum vinnubrögðum en í vísindunum er meira rými til að skapa. Hinn möguleikinn var að fara í skapandi greinar eins og t.d. myndlist sem ég hafði mikinn áhuga á. Ég valdi síðan öldrunarlækningar sem sérgrein. Þar er horft á einstaklinginn í heild og litið til sálrænna og félagslegra þátta einnig sem mér finnst mikilvægt. Mér fannst eldra fólk líka langskemmtilegasti hópurinn að umgangast þegar ég var læknanemi. Þetta er fólk með mikla lífsreynslu, visku og innsæi. Það eru forréttindi að vinna með þessum aldurshópi, sem er í raun búinn að ná sínu fram í lífinu og samskiptin eru svo hreinskiptin.“
„Maður sá í COVID að hlutirnir þurfa ekki að vera svona. Þar fékk fagfólkið að ráða og lausnirnar voru einstakar á heimsmælikvarða. Við erum með heimsklassa fólk en það fær ekki að hafa nægileg áhrif.“
Þetta er brot úr lengra viðtali sem aðgengilegt er á vef Birtings.
Texti: Ragnheiður Linnet
Myndir: Hákon Davíð Björnsson