Stórleikarinn Ezra Miller hlaut fyrr á þessu ári ákæru fyrir húsbrot í Vermont í Bandaríkjunum. Greint var frá því á mánudag að lögreglan í Vermont-ríki hafi brugðist við tilkynningu um innbrot í bænum Stamford þann 1. maí síðastliðinn þar sem nokkrar flöskur af áfengi hafi verið teknar af heimilinu á meðan húsráðendur voru utanhúss. Þetta kemur fram í frétt AP-fréttaveitunnar.
Miller var ákært eftir að lögreglan skoðaði upptökur úr öryggismyndavélum og ræddi við vitni. Þetta er nýjasta málið í röð atvika þar sem Miller hefur verið sakað um ofbeldi og furðulega hegðun. Fram kemur í lögregluskýrslu að Miller haf verið kallað fyrir dómara þann 26. september næstkomandi vegna málsins.
Nýverið birti fréttamiðillinn Insider viðamikla grein um leikarann Miller, þar sem meðal annars er fjallað um veru leikarans hér á landi. Þar er varpað nánara ljósi á veru háns á Íslandi fyrir tveimur árum síðan, en hún er talin stormasöm fyrir.
Óspektir á almannafæri
Miller er heimsfrægur leikari og hefur undanfarin ár leikið lykilhlutverk í kvikmyndum líkt og Justice League, We Need To Talk About Kevin, The Perks of Being a Wallflower, Trainwreck og Fantastic Beasts-myndabálknum og The Flash, þar sem Miller fer með burðarrullu.
Íslandsdvöl Miller komst í heimsfréttirnar þegar myndband af því þegar hán tók konu hálstaki á Prikinu í apríl 2020. Þá var hán handtekið fyrr á þessu ári í borginni Honolulu á Hawaii fyrir óspektir á almannafæri. Sögur herma að Miller hafi verið að áreita gesti bars sem hán heimsótti.
Í erlendum miðlum kemur fram að samkvæmt lögreglunni á Hawaii hafi Ezra æst sig á karíókíbar á Silva Street í Honolulu á sunnudaginn síðastliðinn. Þar öskraði hán og varð pirrað þegar fólk byrjaði að syngja í karíókí. Á einum tímapunkti greip hán míkrófóninn af 23 ára konu sem var að syngja auk þess að stökkva á mann sem var í pílukasti.
Ekki er enn vitað hvort þessar raðir atburða komi til með að hafa áhrif á útgáfu kvikmyndarinnar The Flash, en Miller fer þar með aðalhlutverkið og stendur til að frumsýna ofurhetjumyndina – að öllu óbreyttu – í júní á næsta ári. Hermt er þó að ólíklegt þykir að Miller verði áfram ráðinn í komandi kvikmyndir um hetjuna góðkunnu.