Fjórir nýir þættir af hlaðvarpinu ‘Podcast með Sölva Tryggva’ eru komnir á áskriftarsíðu Sölva sem sett var í loftið nýlega. Þetta er í fyrsta sinn sem Sölvi birtir nýjan þátt síðan tvær konur sökuðu hann um kynferðisofbeldi í maí á síðasta ári.
Viðmælendur í þáttunum eru geðlæknirinn Haraldur Erlendsson, lögfræðingurinn og markþjálfinn Sara Oddsdóttir, myndlistakonan Ellý Ármanns og Númi Katrínarson, eigandi líkamstræktarstöðvarinnar Granda 101.
Fréttablaðið greinir frá en þar segir að Sölvi hefur þegar tekið mikið af viðtölum fyrir þá þætti sem hann hyggst birta á næstunni. Verða meðal viðmælenda fyrrverandi landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson, ofurfyrirsætan Ásdís Rán, lögfræðingurinn Eva Hauksdóttir, tónlistarmaðurinn Haffi Haff, samfélagsmiðlastjarnan Nökkvi Fjalar og Ögmundur Jónasson, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Í lok desember var svo greint frá því að Sölvi hygðist birta sjö til átta óbirta hlaðvarpsþætti, meðal annars viðtöl við Hermann Hreiðarsson, Boga Ágústsson og Krumma Björgvinsson sem allir fóru þess á leit við Sölva að hann birti viðtölin ekki.