„Þetta er algjört helvíti,“ segir Baltasar Kormákur kvikmyndagerðarmaður en hann frumsýndi nýjustu kvikmynd sína, Beast, um helgina og fer hún í almennar sýningar á Íslandi frá og með deginum í dag.
Myndin er með Idris Elba í aðalhlutverki og er væntanleg í kvikmyndahús á næstu dögum. Hann segir að kvíðinn fyrir móttökum nýrrar myndar minnki ekki þó hann sé eldri en tvídægra í kvikmyndabransanum. Segir Baltasar í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 að tækifærið til að leikstýra stórmynd í Afríku kom óvænt upp í hendurnar á honum í heimsfaraldrinum.
Baltasar vann að þáttaröðinni Kötlu fyrir Netflix þegar faraldurinn skall á og fékk þau skilaboð að hætta þyrfti framleiðslu. Það gat Baltasar ekki sætt sig við. Hann leitaði því lausna til að geta haldið áfram. „Ég er fyrsta ‘production’ í heiminum til að byrja aftur,“ segir leikstjórinn.
Baltasar þróaði kerfi þar sem starfsfólki var skipt í hópa eftir starfssviði og allir starfsmenn báru armbönd í vissum lit til að greina hópana í sundur. „Það kom bara úr sundlauginni í Kópavogi. Í gamla daga þá var alltaf „allir með gula bandið upp úr“, rifjar hann upp. Þessi lausn þótti ákaflega farsæl. „Þá fara allir að hringja í mig, hvernig gerðir þú þetta? Ég gerði eitthvað vídeó fyrir Netflix, How to work in COVID, sem var dreift á allar aðrar pródúksjónir.“
Baltasar segir þá: „Ég varð COVID-kóngur fyrir algjöra tilviljun.“
Að sögn leikstjórans var það útsjónarsemi hans í vinnunni í heimsfaraldrinum sem kom honum í samband við Universal-kvikmyndasamsteypuna. Kennslumyndband hans um lausnir við vinnu í faraldrinum var dreift víða og fyrr en varir var hann farinn að tala við fulltrúa Universal. Kvikmynd um ljón í Afríku ber á góma og Baltasar vissi samstundis að hann hefði áhuga.
„Svo fæ ég þetta tilboð og það er bara ekkert í mér, engin gangrýnin hugsun, það er bara já. Ég vil fara til Afríku og gera mynd um ljón.
Mig langar að gera þetta.“