Auglýsing

Blonde á Netflix: Marilyn Monroe heillar enn

Í þessum mánuði var án efa mest spennandi og eftirsóttasta efni á Netflix mynd Andrew Dominiks, Blonde. Handritið er byggt á samnefndri bók Joyce Carol Oates en skáldsagan er spunnin í kringum um ævi Marilyn Monroe. Ung leikkona, Ana De Armas leikur Marilyn en hefur hingað til helst unnið sér það til frægðar að vera Bond-stúlkan í No Time To Die.

Sterkasta atriði myndarinnar og það sem helst vakti athygli á bókinni er þegar Marilyn, tuttugu og eins árs, kemur í sína fyrstu áheyrnarprufu í kvikmyndaveri og framleiðandinn Mr. Z leiðir hana inn í herbergi fullt af uppstoppuðum fuglum og nauðgar henni. Hún stendur upp og býst við að við taki áheyrnarprufa en er vísað út. Síðar fær hún þær fréttir að hún hafi fengið hlutverkið. Nauðgunin var sem sé áheyrnarprófið. Þessi kafli er skrifaður í dagbókarstíl og Joyce Carol byggir hann á sögum ungra Hollywood-leikvenna af móttökum þeim sem þær fengu hér á árum áður og þóttu sjálfsagðar allt þar til Harvey Weinstein var dreginn til ábyrgðar á sinni hegðun.

Julianne Nicholson leikur Gladys, móður Marilyn, en hún glímdi við geðsjúkdóm alla ævi og í myndinni kemur vel fram hvaða áhrif það hafði á dótturina. Hjónaband Marilyn og Joe DiMaggio er sömuleiðis í brennidepli en þau áttu í stormasömu ástarsambandi og voru gift í níu mánuði. Þá þótti það sannarlega tíðindum sæta að fegursta kona Hollywood og besti leikmaður the Yankees tækju saman. Myndavélar fylgdu þeim hvert fótmál og það leyndi sér ekki að Joe beitti konu sína ofbeldi. Hann var mjög afbrýðisamur og óöruggur gagnvart frægð hennar og stöðu sem kynþokkafyllstu konunnar heims.

Við fáum einnig innsýn í samband hennar og Arthurs Miller en leikskáldið fræga var heillað af Marilyn og um tíma leit út fyrir að þau yrðu hamingjusöm saman. Arthur sætti hins vegar rannsókn FBI meðan þau voru saman vegna tengsla hans við kommúnista eða vinstri menn og það skapaði mikla streitu í samskiptum þeirra ekki síst vegna þess að hún var ítrekað yfirheyrð og missti fóstur í kjölfar einnar þeirra. Allt þetta og meira til kemur fram í þessari áhrifamiklu og vel leiknu kvikmynd.

 

Texti: Steingerður Steinarsdóttir

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing