Á síðustu öld breyttust viðhorf manna til heilsu gríðarlega mikið. Að sumu leyti kom þetta til sem viðbragð við lífsstílssjúkdómum og hækkandi aldri mannkyns. Slagorðið góð heilsa í þínum höndum alla ævi, lýsir þessu vel. Hreyfing, mataræði og jafnvægi milli vinnu og frjáls tíma urðu lykilorð. Svo flæktust málin og fæðubótarefni, hvíld, hugarró, ræktun tengsla og fleira og fleira fóru að spila inn í og að lokum varð heilsuræktin enn einn streituvaldurinn. En hvað er nóg og hvenær er allt gert?
Margt fleira spilaði inn í þann tíðaranda að menn væru sjálfir ábyrgir fyrir eigin líðan meðal annars aukinn frítími, minni hreyfing í daglegu lífi og sú ofgnótt matar sem var á boðstólum í vestrænum samfélögum. Sumt hafði laumast inn í líf okkar án þess að við tækjum eftir, til að mynda stærri matarskammtar, viðbættur sykur í ótrúlega mörgum matvælum, transfitur og skyndiréttir. Flest af þessu þótti gott og gilt til að byrja með en fljótlega varð ljóst að þótt bragðið hugnaðist einkar vel bragðlaukum manna var næringargildið lítið og líkami okkar vann ekki vel úr þessu. Offita varð að faraldri.
Í kjölfarið fylgdu margs konar heilsufarsleg vandamál bæði líkamleg og andleg. Næringarfræðingar, líkamsræktarfrömuðir og sérfræðingar á sviði geðræktar höfðu ýmislegt til málanna að leggja og sömuleiðis vísindamenn sem rannsökuðu áhrif matar á mannslíkamann. Sjálfsrækt varð hugtakið sem endurspeglaði tíðarandann og allir voru minntir á að setja súrefnisgrímuna á sig áður en þeir reyndu að bjarga öðrum. Jafnhliða urðu örar framfarir í tækni og þróunin svo hröð að fáir héldu í við hana. Kröfur um þekkingu, kunnáttu og hæfni urðu ríkari og allir áttu að hafa í hendi sér að finna upplýsingar á örskammri stundu og dómgreind til að meta gildi þeirra.
„Mörgum finnst þeir fastir í hamstrahjóli þar sem sami hringurinn er hlaupinn endalaus án þess að nokkru sinni sé nokkru markmiði náð eða komið að endastöð.“
Hvað er mögulegt?
Kannski ekki undarlegt að á þessari öld sé kulnun það hugtak sem best lýsir tíðarandanum. Mörgum finnst þeir fastir í hamstrahjóli þar sem sami hringurinn er hlaupinn endalaus án þess að nokkru sinni sé nokkru markmiði náð eða komið að endastöð. Enn og aftur er jafnvægi orðið lykilorðið en það flækist fyrir mörgum. Hvernig á til að mynda að losna við ákveðin verkefni sem enginn annar er tilbúinn að taka við? Er hægt að velta ábyrgðinni á heimilinu og börnunum yfir á einhvern annan þegar þú stendur ein/n fyrir því? Hver á að sjá þér fyrir öruggu húsnæði ef þú borgar ekki reikningana? Já, það getur verið flókið að setja mörk en það er fyrsta skrefið í sjálfsrækt.
Margir gefa sér lítinn tíma til að rækta heilsuna meðan aðrir setja það í forgang en skilar það vellíðan? Sumar segja að líkamsrækt byggi upp styrk þinn til að takast á við daglegt líf en með því að leggja einnig rækt við andlega vellíðan sértu að auka úthald þitt til að takast á við streituvalda í daglegu lífi. Í augum sumra hljómar þetta allt eins og enn fleiri verkefni til að bæta á þegar yfirfulla stundaskrá dagsins. Á þetta fólk herja alls konar gúrúar með snákaolíu í flöskum eða pilluformi, örstutt æfingaprógrömm sem skila árangri ekki seinna en strax og öpp til að fylgjast með ástandi líkamans hverja sekúndu dagsins.
Til allrar lukku er að verða til hreyfingar sem sporna við þessu. Fólk hefur stigið fram og sýnt fram á að feitur er ekki sama og óheilbrigður, að eilíf keppni við klukkuna er hvorki heilsusamleg né heldur ofþjálfun. Að sætta sig ekki við neitt minna en six pack eða undir 15% fituprósentu í líkamanum skilar ekki endilega bættri heilsu og aukinni hamingju. Margt er líka háð tískusveiflum bæði hvað varðar mataræði og hreyfingu. Þegar allt kemur til alls þarf ekki mikið til. Nokkrar mínútur geta verið áhrifaríkari en klukkustundir ef þær veita gleði og slökun. Lífið er of stutt til að láta kaloríur ræna sig ánægjunni af matnum og slappir magavöðvar eru ekkert til að skammast sín fyrir. Þegar allt kemur til alls er vellíðan og sátt verðmætara en stórir vöðvar.
Texti: Steingerður Steinarsdóttir
Upphaflega birt í Vikunni