Texti: Vera Sófusdóttir
Sálfræðingurinn Abraham Maslow sem rannsakaði innri hvöt einstaklingsins og þarfir, komst að þeirri niðurstöðu að þörfin fyrir að finnast maður vera elskaður og tilheyra væri ein af fimm grunnþörfum mannsins til að geta lifað lífinu til fulls. En sumir eiga erfitt með þetta og telja jafnvel að enginn geti nokkurn tíma elskað þá.
„Það getur pottþétt aldrei neinn elskað mig,“ sagði vinkona mín fyrir nokkrum árum og ætlaði að segja það í gríni en öllu gríni fylgir einhver alvara og ég veit að þannig leið henni raunverulega lengi vel. Eins og enginn gæti elskað hana. Hún gaf mér góðfúslega leyfi til að nefna þetta í pistlinum enda er hún búin að vinna lengi og mikið í sínum málum með hjálp góðs fólks. Það tók hana hins vegar langan tíma að ná að vinna sig út úr þessum hugsunum og hún hefði örugglega ekki getað það nema af því að hún fékk aðstoð fagaðila við þá vinnu. Hún segir það meira að segja sjálf. Hún hefur líka lýst tilfinningunni að finnast hún alltaf utangátta, hvort sem það var í fjölskyldunni, á vinnustað, í vinahóp eða í samskiptum við hitt kynið. „Þetta var eiginlega lamandi tilfinning, ótrúlega íþyngjandi, mig langaði bara að loka mig af og ég skammaðist mín,“ sagði hún þegar ég bað hana um að lýsa þessu. „Mér leið alltaf eins og engum þætti neitt í mig varið og ég ætti ekkert gott skilið. Sérstaklega ekki ást.“
Fórna sínum eigin þörfum til að þóknast
Að líða eins og enginn geti elskað mann getur lýst sér með hugsunum á borð við að maður sé einfaldlega svo gallaður að það sé ómögulegt fyrir nokkurn að elska mann, að maður hafi gert svo mörg mistök í lífinu að maður verðskuldi ekki að vera elskaður eða að þeir sem viti hvað maður hefur gert muni ekki elska mann. Manneskja sem ýtir öðru fólki frá sér, forðast samneyti við aðra og stundar sjálfskaðandi hegðun gæti hugsað að vegna þess eigi hún ekki skilið að vera elskuð. Það er mikilvægt að muna að þótt manni finnist maður ekki vera elskuverður eða verðskuldi ekki jákvæða framkomu frá öðrum þýðir það hins vegar ekki að það sé satt. En hvers vegna líður manni svona? Ástæðurnar geta verið mismunandi og persónubundnar en þessar hugsanir geta til dæmis stafað af völdum þunglyndis, lágs sjálfsmats, vegna ofbeldis sem maður hefur orðið fyrir eða eftir áfall.
Fólk sem finnist það ekki elskuvert fer oft í að þóknast öðrum því það trúir því að það þurfi að vinna sér inn ástina, það á erfitt með að setja mörk og átta sig á því hvenær of langt er gengið. Aðrir eiga því auðvelt með að misnota góðmennskuna. Það er mikilvægt fyrir alla að setja heilbrigð mörk og getur reynst mörgum erfitt, en það reynist þessum einstaklingum sérstaklega erfitt. Ekki vegna þess að þeir séu eitthvað síðri en annað fólk, ó nei. Málið er að það er okkur eðlislægt að vilja vera elskuð og samþykkt þannig að þeir sem finnst þeir ekki vera elskuverðir eiga erfitt með að setja mörk; þeir fórna sínum eigin þörfum til að ná þessum tengslum án þess að átta sig á því að þeir verðskulda góða framkomu frá þeim sem þeim þykir vænt um.
„Það er mikilvægt að muna að þótt manni finnist maður ekki vera elskuverður eða eigi jafnvel skilið jákvæða framkomu frá öðrum þýðir það hins vegar ekki að það sé satt.“
Hugsanir okkar geta farið með okkur í bullið
Þessar tilfinningar sem maður finnur fyrir geta valdið því að maður fer að tala sjálfan sig niður, rífa sig niður, þar sem maður er vonsvikinn með sjálfan sig og jafnvel reiður sjálfum sér fyrir neikvæðar hugsanir. En það er nauðsynlegt að muna að við stjórnum ekki alltaf hugsunum okkar og það er líka allt í lagi þótt maður sé ekki alltaf sammála því sem skýtur upp kollinum. Það er einnig mikilvægt að muna að tilfinning er einmitt það; tilfinning. Hún er ekki staðreynd eða heilagur sannleikur. Það að finnast enginn geta elskað mann þýðir ekki að enginn geti elskað mann. Og jafnvel þótt maður glími við einhver vandamál í lífinu eða sé ekki alveg upp á sitt besta þýðir það heldur ekki að maður verðskuldi ekki ást og umhyggju frá öðrum. Má ég líka minna á að enginn er fullkominn! Hugsanir okkar geta farið með okkur í bullið og þær geta verið ónákvæmar. Þú átt ekki skilið ónærgætna eða ljóta framkomu af hálfu einhvers, sama hvað. Umvefðu þig fólki sem kemur vel fram við þig og af virðingu. Reyndu líka að átta þig á því hvað veldur sjálfskaðandi hegðun þinni og komast út úr henni.
Það er hægt að komast yfir það að finnast maður ekki elskuverður. Við eigum öll skilið að finna ástúð, kærleika, umhyggju … Sama hvað. Hvort sem maður leitar aðstoðar hjá fagaðila, góðri vinkonu eða trúnaðarvini eða skellir sér í hugræna atferlismeðferð þá er hægt að finna þessa dásamlegu tilfinningu einn daginn: Að maður sé elskuverður.