Auglýsing

Björk: „Án dýfanna myndi maður ekki njóta toppanna“

Björk Guðmundsdóttir, skærasta tónlistarstjarna okkar Íslendinga, gaf á dögunum út plötuna Fossora. Óhætt er að segja að aðdáendur tónlistarkonunnar hafi beðið eftir nýju efni með mikilli eftirvæntingu, en tæp fimm ár eru síðan hún gaf út síðustu plötu sína, Utopiu. Tvö laganna á Fossoru voru samin til minningar um móður Bjarkar sem lést árið 2018. Fyrra lagið fjallar um þegar móðir hennar var veik en hið síðara samdi Björk eftir að hún var fallin frá, það hafi verið samið með það fyrir huga að fagna lífi móður hennar. Björk segist trúa að það sé líf eftir dauðann en tónlistar-raungreina-týpan sem hún sé hafi sína skýringu á því hvernig það líf sé.

Aldrei verður blaðamaður stressaður fyrir viðtöl en það skal viðurkennast að það voru nokkur fiðrildi á sveimi í maganum áður en viðtalið hófst, þar sem Björk hefur verið í miklu uppáhaldi hjá undirritaðri alveg frá því fyrsta sólóplatan, Debut, kom út árið 1993. En öll fiðrildi hverfa út í buskann um leið og Björk heilsar glaðlega og eins og hennar er von og vísa; einlæglega og án nokkurs hroka. Blaðamaður byrjar á að óska Björk til hamingju með nýju plötuna, Fossora, og spyr hvernig tilfinningin sé að vera búin að koma henni út. „Þetta hefur náttúrlega verið óvenjulangt ferli sem COVID auðvitað hægði aðeins á en að vísu fannst mér það æðislegt,“ segir Björk glaðlega.

„Mér fannst geðveikt að vera á Íslandi í þrjú ár og pakka ekki einu sinni ofan í ferðatösku í alla vega tvö af þeim. Ég hef ekki verið svona lengi heima frá því ég var unglingur, hugsa ég, svo mér fannst þetta bara geggjað. En þetta var líka óvenjulöng meðganga, eiginlega bara eins og hjá fílum, þannig að núna þegar þetta er allt að koma út, eitthvað sem við öll í teyminu erum búin að vera að vinna að svona lengi, verður maður ofsalega glaður. Það er mikill léttir og það kemur manni alltaf jafnmikið á óvart þegar maður gefur eitthvað út hvað það tekur mikla vigt af öxlunum á manni þegar það er farið af stað. Maður léttist alveg um svona 30 kíló, tilfinningin er þannig, og maður er ekki lengur með þetta inni í sér. Það er búið að koma afkvæminu út; það verður bara að bjarga sér og það er ekkert sem maður getur gert í því.“

Kannski eins og að fæða bara lögráða afkvæmi?

„Já, þetta er ekkert ólíkt. Ég er mjög sammála þér í því.“

Hvað var þetta langur meðgöngutími?

„Ef þú tekur dagsetninguna frá því Utopia kom út, í desember 2017, þá eru þetta næstum því fimm ár, eða svona fjögur og hálft myndi ég segja. En síðan eru sko nokkrar ástæður fyrir því hvað þetta tók langan tíma. Ein ástæðan er sú að ég gerði tæknilega séð tvo túra í fyrsta skipti með Utopiu. Fyrst gerði ég svona svokallaðan venjulegan túr, með flautustelpunum, og við fórum einn hring um Evrópu og spiluðum líka í Háskólabíói, þar sem ég gerði fyrstu „test-tónleikana“. Síðan var ég beðin um að taka þátt í opnun byggingar í New York sem kallast The Shed og þá tók ég þetta aðeins lengra, en með sömu tónlistina, og við gerðum í raun eitthvað sem enginn hafði gert áður. Við vorum með 26 leiktjöld, eða talræn leiktjöld, skulum við segja, sem ferðuðust inn og út í gegnum alla tónleikana þannig að í hverju lagi voru þessi tjöld kannski að opnast og lokast um það bil 20 sinnum eða eitthvað. Við kölluðum þetta leiktjalda-kóreógrafíu og úti kalla ég þetta digital theatre eða talrænt leikhús. Við lögðumst í rosalega vinnu við að hanna þetta, eða þrjú ár, þar sem við bjuggum til teiknimyndir, eða animation, fyrir öll lögin og í raun bjuggum við til jafnmikið efni og við værum bara að gera kvikmynd. Síðan túruðum við með þetta um heiminn, undir heitinu Cornucopia sem byggðist sem sagt á tónlistinni af Utiopiu og þessum verkum sem við bjuggum til, og það var náttúrlega rosalega erfitt að setja þetta upp því alls staðar þurftum við að setja upp þessi 26 tjöld sem eru hvergi til, og þetta var mjög kostnaðarsamt en gekk rosalega vel.

Allir dómarnir voru … Fyrirgefðu, ég ætla nú ekkert að vera að monta mig,“ segir Björk afsakandi, „en allir dómarnir voru bara frábærir, við fengum fullt hús stiga hjá öllum gagnrýnendum og það var auðvitað alveg frábært. Þetta var samt rosalega erfitt og mikil vinna en mjög skemmtilegt ferli og gekk rosalega vel. En svo náttúrlega kom COVID. Þá þurftum við að setja þetta verkefni í pásu og þá fór ég bara að vinna í nýju plötunni á fullu. Ég ætla samt að hafa Cornucopiu sem eins konar regnhlíf yfir bæði Utopiu og Fossoru og notast við lögin af báðum plötunum í verkinu.“

Björk gerði þó talsvert meira en „bara“ vinna í nýju plötunni. Hún lék meðal annars í kvikmyndinni The Northman, Norðmaðurinn, tók upp 20 klukkutíma efni fyrir hlaðvarp og bardúsaði eitt og annað, að mestu leyti hérna heima á Íslandi. Blaðamaður spyr hvort það sé ekki alltaf nóg um að vera í kollinum á Björk sem virðist vera endalaus uppspretta tónlistar og alls konar listar. „Æ, takk, maður roðnar nú bara,“ segir Björk með hógværð. „Sko, þegar fólk er búið að vera að gera hlutina svona lengi eins og ég er búin að vera að gera það sem ég er að gera, þá er þetta eitthvað sem hefur gerst mjög hægt yfir margra ára tímabil. Þannig að þegar maður er unglingur gefur maður kannski út popplag, einhver tekur ljósmynd af manni og vinur manns gerir plakatið. Svo sér maður myndina og er ekki alveg sáttur en hugsar að manni sé sama um einhverja mynd. „Ég er tónlistarmaður,“ hugsar maður. Seinna sér maður svo aðra mynd og ákveður að hún sé ekki alveg málið og fer að hafa skoðun á fleiri hlutum. Svo einhvern veginn vindur þetta bara upp á sig, maður hættir að geta verið alveg hlutlaus og þrjátíu árum seinna er maður með puttana í öllu.“

„Kannski var ég fyrst pínu fúl yfir því að vinir mínir þyrftu ekki að passa röddina og gátu verið að sprella og svona en svo sá ég að það eru bæði kostir og gallar við það að vera söngkona.“

Hvert myndirðu segja að væri stærsta augnablik ferils þíns til þessa?
„Það er ómögulegt að velja … Það eru svo margir hátindar, flestra hefur verið notið bak við tjöldin, litlir persónulegir sigrar þegar mjög erfiðu verkefni hefur lokið, eða upptaka lags verið kláruð og ekki má gleyma þúsundum tónleika sem margir hafa nokkra toppa innbyrðis. En svo eru auðvitað dýfurnar líka; án dýfanna myndi maður ekki njóta toppanna.“

 

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Viðar Logi 

Viðtal Vikunnar má lesa í heild sinni á vef Birtings.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing