Auglýsing

Töfraði fram ljúffengan mexíkóskan mat og spennandi kokteila

Áhugabakarinn og sælkerinn Indíana Ásmundardóttir bauð nýverið í veislu með mexíkósku þema. Kjúklinga-taquitos, nachos, maísdýfa og skemmtilegur bjórkokteill er meðal þess sem var á boðstólnum og auðvitað líka ljúffeng kaka sem Indíana skreytti með mexíkósku ívafi.

Ég bauð mínum allra bestu konum í mexíkóska veislu heima, þ.e. systur mínar tvær, María og Fanney, komu og besta vinkona síðan úr grunnskóla, Sunna. Þær voru mjög ánægðar með boðið,“ segir Indíana þegar hún er spurð út í hópinn sem kom saman í veislunni. „Ég var með mexíkóskan mat á boðstólnum, taquitos með avókadósósu og pico de gallo, einnig nachos, maísdýfu og svo súkkulaðiköku skreytta með kaktusum,“ segir hún um veitingarnar. Þær skáluðu svo í Corona-bjór og ljúffengum kokteilum.

„Ég elska mexíkóskan mat, hann er svo fjölbreyttur en einhvern veginn alltaf góður. Indversk matargerð er líka í miklu uppáhaldi.” Þegar hún er spurð út í hvort hún haldi oft matarboð segir hún: „Nei, ég hef ekki verið nógu dugleg við það undanfarið. Ég mæti mun oftar sem gestur. En ég vildi að ég væri miklu duglegri að bjóða heim í mat, mér finnst það nefnilega mjög gaman.“

BAKAÐI NÁNAST Á HVERJUM DEGI

Kakan sem Indíana bauð upp á fangar athygli okkar. Indíana hefur haft gaman af bakstri frá því að hún man eftir sér en það er ekki ýkja langt síðan hún fór markvisst að einbeita sér að bakstrinum. Henni þykir skemmtilegast að baka smákökur og kökur en kökuskreytingar eru í mestu uppáhaldi. Kökurnar sem Indíana skreytir vekja svo sannarlega lukku og hún er dugleg að deila myndum af kökunum á samfélagsmiðlum.

„Ég hef alltaf haft gaman af því að baka og að gleðja fólk með allskonar góðgæti. Það var samt ekki fyrr en í COVID-faraldrinum sem ég fór eitthvað að baka að viti. Þá bakaði ég nánast alla daga og kenndi sjálfri mér kökuskreytingar.“ Kökurnar sem hún bakar eru skrautlegar og skemmtilegar. Aðspurð hvaðan innblásturinn kemur nefnir hún helst netið. „Frá myndböndum á samfélagsmiðlunum og af myndum af Pinterest.“

TAQUITOS-RÉTTURINN SLÆR ALLTAF Í GEGN

Indíana hefur ekki bara gaman af bakstri heldur líka eldamennsku og finnst alltaf spennandi að leita uppi góðar uppskriftir og prófa nýjar aðferðir. Einn þeirra rétta sem Indíana gerir reglulega og klikkar aldrei er taquitos sem hún bauð einmitt upp á í mexíkósku veislunni. „Þessi slær alltaf í gegn, undantekningalaust.“ Við fengum hana að sjálfsögðu til að deila uppskriftinni með okkur ásamt uppskriftum að m.a. pico de gallo og avókadósósu og einnig kokteilum sem passa vel með taquitos-réttinum.

TAQUITOS

3 kjúklingabringur
300 g rjómaostur
1 pakki tacokrydd
2 msk. chipotle-mauk
salt og pipar eftir smekk
16 litlar tortilla-kökur
mexíkóostur, rifinn
rifinn ostur

Bakið kjúklingabringurnar í 20 mín. á 180°C og blæstri eða þar til fulleldaðar. Blandið rjómaosti, kryddi, chipotle-mauki, salti og pipar saman í stóra skál. Rifið kjúklingabringur niður og blandið saman við rjómaostblönduna. Geymið í kæli í 1-2 klst. Setjið taquitos saman: dreifið kjúklingablöndunni jafnt á tortilla-vefjurnar, stráið osti og mexíkóosti yfir vefjurnar. Rúllið þeim þétt upp og raðið í eldfast mót, penslið með olíu og setjið rifinn ost yfir. Bakið við 180°C í 10-15 mín. eða þar til gullinbrúnar.

PICO DE GALLO

8-10 kirsuberjatómatar
1 rauðlaukur
1 hvítlauksrif
1 jalapeno
3 msk. saxaður kóríander
safi úr hálfri límónu
salt og pipar eftir smekk
kúmen

Saxið tómata, rauðlauk, hvítlauk og jalapeno mjög smátt og blandið saman í skál. Hrærið
restina af hráefnum saman við og geymið í kæli í minnst 1 klst.

*Birt í Gestgjafanum

Umsjón/ Guðný Hrönn
Myndir/ Anna Kristín Scheving

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing