Auglýsing

„Mér finnst sjúkdómurinn verstur þegar álagið er mikið“

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir hefur verið ein okkar ástsælasta og vinsælasta söngkona í fjölmörg ár þótt ung sé en ferill hennar hófst þegar hún var níu ára gömul. Einn fylgifiskur frægðarinnar er að verða að umtalsefni en Gróa á Leiti er oft óvægin og því hefur Jóhanna Guðrún fengið að kynnast oftar en einu sinni. Stutt er síðan kaffistofur landsins loguðu þegar fréttir bárust af því að hún væri að skilja við eiginmann sinn og barnsföður, taka saman við gamlan kærasta og væri orðin ófrísk. Jóhanna Guðrún kippir sér ekki lengur upp við slíkar sögur en viðurkennir að henni hafi mislíkað þegar fjölmiðlar greindu frá óléttunni án hennar samþykkis og hún þurfti að tilkynna eldri dóttur sinni það í síma þar sem hún var í frístund eftir skóla að hún væri að fara að eignast systkini. 

Það er hellidemba úti þennan septembermorgun sem blaðamaður hittir Jóhönnu Guðrúnu á kaffihúsi í Hafnarfirði. Dóttirin, Jóhanna Guðrún, sem fæddist í apríl á þessu ári, er með í för og hin ánægðasta með athyglina sem gestir kaffihússins og blaðamaður veita henni. „Í rauninni gekk allt vel á meðgöngunni og í fæðingunni,“ svarar Jóhanna Guðrún aðspurð og dregur sokkana af litlum tásum. „Ég er með gigtarsjúkdóm og mér hafa yfirleitt fundist meðgöngurnar svolítið erfiðar; ég er oft með alls konar verki, ofboðslega þreytt og fyrstu fjórtán vikurnar með ógleði og svima. Fæðingarnar þrjár hafa hins vegar gengið fáránlega vel; ég hef í raun bara hoppað inn á deild, fætt barn og farið heim. Ég er mjög heppin með það.“

Fyrir átti Jóhanna dótturina Margréti, sem er að verða sjö ára í október, og Jón sem er þriggja ára. „Margrét er alveg ótrúlega dugleg og það er heilmikil hjálp í henni, hún spjallar oft við litlu systur sína og hefur ofan af fyrir henni svo ég næ oft að gera heilmikið á meðan. Jón er hins vegar algjör brjálæðingur,“ segir Jóhanna og skellir létt upp úr.

„Innsæi hennar sem móður var alveg einstakt þarna“ 

Jóhanna Guðrún var orðin þjóðþekkt söngkona sem barn að aldri. Fyrsta plata hennar, Jóhanna Guðrún 9, kom út árið 2000 og naut mikilla vinsælda. Nokkrum árum síðar var Jóhanna Guðrún komin með samning hjá stórfyrirtækinu Sony og flakkaði reglulega milli Íslands og Bandaríkjanna næstu árin. Hún segir að það hafi aldrei komið annað til greina en að leggja sönginn fyrir sig. „Ég vildi alltaf vera að syngja fyrir fólk þegar ég var lítil og var alltaf að troða mér að, hvort sem það var heima eða að heiman. Afi minn var í Oddfellow og Lions og á öllum jólaböllum þar, og í öðrum boðum, þurfti ég alltaf að fá að syngja og þótti nú mörgum í fjölskyldunni nóg um,“ segir hún hlæjandi, „bara já, nei, elskan mín, þú ert búin að fara upp á svið og syngja tvisvar, nú er bara komið gott.“

Var mikið tónlistaruppeldi á æskuheimilinu? „Mamma segist hafa tekið eftir því þegar ég var bara pínulítil hvað ég elskaði tónlist og hún áttaði sig á því að ég væri öðruvísi en önnur börn hvað þetta varðaði. Innsæi hennar sem móður var alveg einstakt þarna; að sjá að það þyrfti að örva mig á þessu sviði og ekki reyna að troða mér inn í einhvern kassa. Mamma spilaði mikið fyrir mig klassíska tónlist og studdi mig eindregið í að hlusta á alls konar góða tónlist, hún hafði mikinn áhuga á þessu með mér sem var ómetanlegt. Sjálf hafði ég svo rosalegan metnað í að æfa mig og var í raun minn eigin raddþjálfi framan af. Seinna meir var ég svo hálfgert tilraunadýr hjá Heru Björk þegar hún fór að læra Complete Vocal Technique, CVT, og ég naut mjög góðs af því. Enn í dag finnst mér Hera vera svolítið svona „my fairy godmother“. Ef ég lendi í vandræðum með röddina, hringi ég í Heru. Svo hafa Kristjana Stefánsdóttir og Þórhildur Örvarsdóttir líka reynst mér rosalega vel. Seinna fór ég í akademíunámið í CVT og það var frábært en annars er það þannig að allt þetta sem ég hef lært nota ég bara þegar ég þarf að nota það. Annars syng ég bara. Ég held ég hafi verið heppin að byrja svona ung að syngja, ég ruddi brautina fyrir mig svolítið sjálf og var búin að kynnast rödd minni svo vel strax sem krakki. Ég lendi líka sjaldan í vandræðum með röddina; jú, ég hef lent í því að verða bólgin og svona en aldrei í neinum stórkostlegum vandræðum. Til dæmis veit ég að sumar söngkonur hreinlega missa getuna að syngja þegar þær eru ófrískar og eftir meðgönguna jafnvel en ég hef aldrei lent í neinu svoleiðis.“

„Ég held ég hafi aldrei trúað eins mikið á einhvern æðri mátt, einhvers konar stjórnun, eins og þegar ég hitti Óla eftir öll þessi ár. Ég er algjörlega sannfærð um amma Jóhanna hafi haft eitthvað með þetta að gera; hún hafi viljað að svona yrði þetta.“

Sjúkdómurinn verstur þegar álagið er mikið

Blaðamaður man vel eftir því þegar Jóhanna Guðrún var að stíga sín fyrstu spor opinberlega og því hversu vinsæl hún var. Það hlýtur að hafa töluverð pressa að vera barnastjarna og koma víða fram og oft? „Á þeim tíma fann ég ekki mikið fyrir pressu andlega en þetta er samt um það leyti sem ég byrja að veikjast af gigtinni, á svipuðum tíma og ég var að fara að gefa út fyrstu plötuna mína. Ég man að mamma sagði einhvern tíma að læknirinn hefði spurt hana hvort ég væri stressuð þegar ég væri að fara á svið og mamma svaraði neitandi, það væri svo ótrúlegt að ég virtist aldrei vera stressuð. Þá sagði læknirinn við hana að það sem færi ekki út, færi inn. Þannig að ég veit ekki … Kannski er gigtin mín fórnarkostnaðurinn sem ég þarf að þola eftir þetta allt.“

Manstu eftir því þegar þú fórst fyrst að finna fyrir sjúkdóminum?
„Já. Ég var víst óvær sem barn, grét mikið og hef líklega náð að þjálfa lungun vel. En það var alltaf eitthvað að mér í maganum og eyrunum og svo framvegis. Fyrsta æskuminningin mín er frá því að ég var vafin inn í skýjateppi sem mamma hafði saumað og pabbi var að labba með mig um gólf sem þurfti oft að gera því ég var svo óvær. Ég fór í alls konar rannsóknir en þegar ég var um átta ára var ég orðin bláleit á litinn, sérstaklega á fótunum, og farin að fá bólguhnúta undir húðina. Þá voru tekin sýni úr hnútum í lærinu og kálfunum á mér en blóðprufur höfðu alltaf verið óeðlilegar en ekki sýnt fram á hvað gæti verið í gangi. Þarna kviknuðu sem sagt grunsemdir um að ég væri með barnagigt en læknum gekk illa að finna út hvers konar gigt þetta væri. Ég var sett á einhver gigtarlyf, svo datt sjúkdómurinn niður í um tveggja ára skeið. Mér finnst sjúkdómurinn verstur þegar álagið er mikið á meðan aðrir gigtarsjúklingar tengja sjúkdóminn oft við kulda og raka, ég geri það ekki en finn hvernig hann versnar þegar ég er undir álagi. Til dæmis eru jólatarnirnar oft erfiðar en lítill svefn, ferðalög og svoleiðis fylgir auðvitað starfi mínu. Ég hef verið lögð inn á spítala eftir álagstarnir.“

„Mér finnst sjúkdómurinn verstur þegar álagið er mikið á meðan aðrir gigtarsjúklingar tengja sjúkdóminn oft við kulda og raka, ég geri það ekki en finn hvernig hann versnar þegar ég er undir álagi. Til dæmis eru jólatarnirnar oft erfiðar en lítill svefn, ferðalög og svoleiðis fylgir auðvitað starfinu mínu. Ég hef verið lögð inn á spítala eftir álagstarnir.“

Viðtalið við Jóhönnu má lesa í heild sinni á vef Birtings.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing