Einhverfa er oft álitin tengjast einstökum hæfileikum á tilteknu sviði og nú er umræðan einnig tengd bólusetningum. Greiningum fjölgar á ógnarhraða en sannleikurinn er víðs fjarri því sem sögusagnirnar herma.
„Ef Charlie gæti látið í ljós annað er grunnþarfir sínar, held ég að hann myndi segja okkur að einhverfa sé engin ofurgáfa því ég skynja með eigin augum þjáningu hans þegar hann getur ekki gert sig skiljanlegan.“
Þannig lýsti bandaríska blaðakonan Eileen Lamb einhverfum syni sínum, þá átta ára að aldri. Veruleiki þeirra er oft allt annar en sýndur er í kvikmyndum á borð við „Rain Man“ og hinum ýmsu heimildamyndum. Ensk rannsókn hefur leitt í ljós að læknar sjúkdómsgreindu 687 prósent fleiri með einhverfu árið 2018 en við átti árið 1998.
Tölur frá Bretlandi 2021
Í heimi kvikmyndanna eru einhverfir iðulega gæddir einstökum hæfileikum, svo sem eins og að leysa flókin reikningsdæmi á sekúndubroti eða að leggja á minnið öll smáatriði tiltekins dags. Í raun réttri eru 90 af hundraði einhverfra ekki gæddir sérstökum hæfileikum í líkingu við þessa. Auk þess á fjórðungur til helmingur þeirra, líkt og Charlie, sonur Eileen, í erfiðleikum með að segja meira en einstök orð.
Einhverfa er ákaflega misskilin greining sem til eru margar útgáfur af. Hún reynist þeim sem henni eru haldnir iðulega afar erfið en börn á borð við Charlie reyna oft að valda skaða á sjálfum sér og eiga að öllum líkindum aldrei eftir að lifa lífinu án mikillar aðstoðar annarra.
Fyrir bragðið vekur mikil fjölgun einhverfugreininga undanfarinna áratuga óhug. Aukningin hefur gert það að verkum að ýmsa er farið að gruna að tengsl séu milli einhverfu annars vegar og alls mögulegs, allt frá MMR-bólusetningu yfir í þarmagerla, hins vegar en nýjustu rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að skýringin er engan veginn svo einföld.
Maður mundi eftir 12.000 bókum
Í kvikmyndinni „Rain Man“ frá árinu 1988 leikur Dustin Hoffman einhverfan mann með einstaka sálræna hæfileika sem bróðir hans notfærir sér til að bera sigur úr býtum í fjárhættuspili.
Ein helsta fyrirmynd aðalpersónu myndarinnar var Bandaríkjamaðurinn Kim Peek sem sagður var vera fær um að leysa flókin stærðfræðidæmi án nokkurrar fyrirhafnar og geta munað allt innihald 12.000 ólíkra bóka af mikilli nákvæmni, þar með talinni símaskrá.
Slíkir ofurhæfileikar einkenna þá sem kallaðir hafa verið einhverfir ofvitar og fyrir vikið má segja að kvikmyndin hafi lýst tilteknum þætti einhverfunnar réttilega. Hins vegar hefur lýsing kvikmyndarinnar á einhverfu leitt af sér einkar óheppilegar og klisjukenndar hugmyndir um einhverfu.
Segja má að m.a. „Rain Man“ hafi fætt af sér þær hugmyndir manna að einhverfa sé til marks um einstaka hæfileika. Í raun og veru eru hefðbundnir einhverfir þó engan veginn neinir stærðfræðisnillingar.
Einungis um tíu af hundraði allra einhverfra búa yfir einstökum eiginleikum, í líkingu við það að geta lært utanbókar ferðaáætlanir. Enn færri eru svo þeir sem kalla mætti einhverfa ofvita með einstaka stærðfræðigetu, tónlistarhæfileika eða listræna eiginleika.
„Einhverfa er ekki einhver furðulegur náungi í sjónvarpi sem leyst getur flóknustu stærðfræðidæmin. Um er að ræða innantóma frasa sem í besta falli geta átt við um einhverja okkar en eru að öðru leyti viðlíka sjaldséðir meðal einhverfra og þeirra sem ekki teljast vera einhverfir,“ segir Eileen Lamb sem sjálf er haldin einhverfu á vægu stigi.
Einhverfa er ekki ein greining
Einstakir hæfileikar eru sem sé ekkert sem við getum staðhæft að eigi við um einhverfa. Einhverfa einkennist hins vegar af allt öðrum þáttum.
Vegna víðtækrar þroskatruflunar í heila eiga einhverfir í mesta basli með að tjá sig og að eiga félagslegt samneyti við aðra. Hegðunin einkennist iðulega af endurtekningum og þeir einblína oftar en ekki á smáatriðin umfram heildina.
Nálgast má lengri útgáfu af þessari grein á vef Lifandi vísinda.