Ritstjórn Húsa og híbýla kíkti í heimsókn á vinnustofu listakonunnar Elínar Þ. Rafnsdóttur en hún gerði litríka verkið sem prýðir póstkortið að þessu sinni. Elín stundaði listnám frá árunum 1976 til 1986 en tók sér svo langt hlé frá listsköpun áður en hún fór aftur að sinna myndlistinni af fullum krafti fyrir sex árum síðan. Hún segir það góða tilfinningu, að vera farin að skapa list aftur og á það til að gleyma sér á vinnustofunni þegar hún gefur sköpunarkraftinum lausan tauminn. „Þá verð ég að stilla vekjaraklukku til að muna að hætta,“ segir Elín.
Nafn: Elín Þ. Rafnsdóttir
Menntun: Myndalista- og handíðaskóli Íslands, Royal Danish Academy of Fine Arts – Billedkunst, MFA-nám í San Francisco Art Institute og MFA-nám í höggmyndalist við SUNY New Paltz N.Y. MFA-nám í höggmyndalist.
Vefsíða: www.elinrafnsdottir.com
Instagram og Facebook: @elinrafnsdottir
Hvernig listamaður ert þú?
„Listmálari og grafíklistamaður sem finnst gaman að gera tilraunir með efni.“
Í hvaða miðil/efnivið vinnur þú helst?
„Olíumálun hefur verið minn helsti miðill en einnig hef ég unnið með grafík, blandaða tækni, vatnsliti, blek og akrýl. Grafíkverkin eru unnin í tölvu út frá teikningum og ljósmyndum. Einnig hef ég verið að vinna með resin, olíumálverk og krossviðarplötur sem ég fræsi í.“
Hvenær fórstu að sinna myndlistinni?
„Foreldrar mínir sendu mig í Myndlistaskólann í Reykjavík í leirmótun hjá Ragnari Kjartanssyni þegar ég var tíu ára og ákvað ég þá að ég ætlaði að verða myndlistarmaður. Ég menntaðist síðan í myndlist og útskrifaðist með MFA-gráðu í höggmyndalist/grafík en byrjaði seinna að mála. Ég tók langt hlé í myndlistinni en byrjaði fyrir 15 árum að mála en fór í myndlistina af fullum krafti fyrir sex árum. Börn og lifibrauð tóku 20 ár frá listsköpuninni en þar fyrir utan var ég að kenna á myndlistabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti í 33 ár. Ég vil samt taka það fram að ég valdi að hætta í myndlistinni til að sinna heimili og börnum og sé ég ekki eftir því vali. En það er ótrúlega gaman að byrja aftur í myndlistinni eftir gott hlé.“
Hvernig hefur stíllinn þinn þróast í gegnum árin?
„Hann breyttist mikið eftir langa hléið frá myndlist. Frá skúlptúr yfir í tvívídd. Myndlist mín hefur alltaf verið náttúrutengd með abstrakt expressionisma.“
Hvernig er ferlið, frá hugmynd að fullkláruðu verki?
„Ég byrja á mynd og læt myndina svo ákveða hvert hún vill fara.“
Hvernig myndir þú lýsa vinnustofunni þinni?
„Besti staður í heimi. Ég er með tvær vinnustofur, eina inni hjá mér í íbúðinni og hina úti í bílskúr. Í bílskúrnum get ég slett og djöflast en inni í íbúðinni þarf ég að passa mig betur. Báðar hafa sína kosti og galla, ég vinn til dæmis ekki með olíumálningu inni í íbúð.“
Hvað er ómissandi að hafa á vinnustofunni?
„Mér þykir ómissandi að hafa góða birtu, góða trönu, mikið af drasli til að grípa í, mikið af penslum og litum.“
Hvaðan kemur innblásturinn?
„Verkin mín eru innblásin af nærmyndum af íslenskri náttúru. Mín aðaláhugamál eru að ganga, skíða og vera í íslenskri náttúru.“
Áttu þér uppáhaldsverk af þeim sem þú sjálf hefur gert?
„Já og nei. Alltaf það sem ég er að gera síðast er í mestu uppáhaldi. En jú, það er ein mynd sem ég gerði í krossvið, olíu og resin á síðasta ári sem er í svolitlu uppáhaldi enn þá.“
Hvaða litir eða litasamsetningar heilla þig mest?
„Harmonía í litum heillar mig mest.“
Áttu þér einhverja uppáhaldslistamenn sem hafa veitt þér innblástur í þinni sköpun?
„Já, þeir eru margir en í mestu uppáhaldi núna eru Lynette Yiadom, Brice Marden, Joan Mitchell, Brian Harte og Adrian Ghenie.“
Hvað getur þú sagt mér um verkið sem prýðir póstkortið?
„Það er blek, vatnslitur og akrýlmálning á pappír. Stærðin er 64 x 90 cm. Verkið er núna hluti af sýningu á Mutt Gallery á Laugaveginum. Þannig að allir eru velkomnir að koma og sjá myndina þar. Sýningin stendur yfir til 9. janúar. Kveikjan að verkinu var bara sú að ég var svo glöð þennan dag því dóttir mín var nýkomin í heimsókn frá Svíþjóð.“
Hvað er það besta við að starfa sem myndlistarmaður að þínu mati?
„Það er bara svo gaman að mála og leika sér. Tíminn hreinlega hverfur og ef ég þarf að mæta á einhvern stað þá verð ég að stilla vekjaraklukku til að muna að hætta.“
Hvar fást verkin þín?
„Ég er með heimasíðu elinrafnsdottir.is og fólk getur haft samband við mig þar í gegnum tölvupóst. Síðan er hægt að finna verkin mín inni á appoloart.is og artotek.is. Ég er líka með sýningar reglulega og ég segi frá þeim á Instagram eða Facebook, @elinrafnsdottir.“
Hvað er fram undan? „Þetta hefur verið mjög annasamt ár hjá mér, ég var með eina einkasýningu, eina dúó-sýningu og þrjár samsýningar. Núna er ég með sýningu í Mutt Gallery á Laugavegi 48. Ég var búin ákveða að taka hlé frá sýningum í smátíma en er reyndar langt komin með verk upp í aðra einkasýningu svo ætli ég verði ekki bara með sýningu á næsta ári.“