Auglýsing

Gæti veitt til matar með góðum hringprjóni

UMSJÓN/ Guðný Hrönn
Úr tímariti Húsa og Híbýla

Nafn: Védís Jónsdóttir
Menntun: Fatahönnuður frá Skolen for Brugskunst, sem nú heitir Det Kogelige Akademi (Danish Design School).
Starf: Yfirhönnuður hjá Ístex

 

Hver ertu?
Skapandi manneskja.

Hvaðan kemurðu?
Frá Melaleiti, bærinn stendur uppi á bökkum við mynni Borgarfjarðar. Þar bjuggu þrjár kynslóðir og ég naut þess að alast upp í sveit en þó mest að teikna og skapa hluti. Ég flutti snemma að heiman og fór í Menntaskólann í Hamrahlíð en þaðan lá leiðin til Kaupmannahafnar þar sem ég fann mína fjöl í hönnun.

Hvar og hvenær líður þér best?
Heima með fjölskyldunni. Ég hef átt nokkur heimili víða um heim og er fljót að gera mig heimakomna. Hreint vatn og hreint loft eru einnig það besta sem ég ást.

Hvernig nærð þú slökun? 
Með því að fara út að ganga eða fara út í gróðurhús og tala við plönturnar mínar.

Hvaða bók eða bækur hafa hreyft við þér?
Fjölmargar, sérstaklega þegar ég var barn og unglingur. Hundrað ára einsemd, Zivago læknir, bækur Halldórs Laxness og Isabelu Allande, Múmínálfarnir, listaverkabækur og svo mætti lengi telja. Í seinni tíð trílógía Jóns Kalmanns. Það sem heillar mig er … ást umhyggja og heiðarleiki.

Besta plata allra tíma?
Buena Vista Social Club, annars er ekki hægt að svara þessari spurningu því tímabilin eru mörg og ekki hægt að bera þau saman. Fallegasta byggingin? Pantheon í Róm.

Uppáhaldsveitingastaður?
Heima hjá mér eða þegar stórfjölskyldan eldar saman uppi í sveit.

Hvert myndir þú fara í ferðalag ef þú værir á leið í draumaferðina?
Galapagos á góðu skipi. Hvaða tónlist ertu að hlusta á þessa dagana? Vök, Harry Styles og Henry Purcell.

Uppáhaldsgarnið? 
Lopi en sérstaklega Léttlopi.

Hvaða þrjá hluti myndirðu taka með þér á eyðieyju?
Góðan hringprjón, gæti notað hann til veiða, borðað með honum og til að prjóna band sem ég myndi búa til úr þangi eða öðru úr umhverfinu. Leatherman-vasahníf og sólarrafhlöðudrifið eimingartæki til að hreinsa salt úr sjónum fyrir drykkjarvatn.

Hvernig er draumaheimilið?
Í Vesturbænum við sjóinn þar sem ég á heimili. Er alin upp við sjó og fjöll og kann best við það, en fjöllin í lífi mínu hafa líka verið í formi háhýsa á Manhattan. Góðir gluggar og dagsbirta eru mér nauðsynleg. Nú bý ég í West End í Washington DC þannig að það er eitthvað við vesturbæi sem heillar. Ertu safnari? Fötin og skórnir mínir flokkast kannski undir söfnun, ég fer vel með flíkurnar mínar og á margar þeirra í áratugi.

Hvaða litir eða litasamsetningar eru í uppáhaldi?
Mér finnst allir litir fallegir en þessa dagana er kannski blágrænn og vínrauður í uppáhaldi en það fer eftir tón litanna. Ég hef mjög gaman af því að hanna samkembda liti sem er blanda af mörgum litum í mismunandi hlutföllum. Ég geri oft margslungnar litasamsetningar en þá skiptir máli hvaða litir snertast og í hvað magni þeir eru fyrir heildarmyndina. Ég hanna flest munstur fyrst í grátónum til að tryggja gott jafnvægi og að þau gangi upp í mörgum litum.

Fallegasta listaverkið?
Þau eru mörg og eftir að hafa búið í Róm er erfitt að gera upp á milli þeirra stórbrotnu verka sem þar eru. Þó er eitt listaverk sem hafði mikil áhrif á mig unga en það var þegar ég sá mynd af Grænu röndinni eftir Henri Matisse sem er portrett af konunni hans.

Hvað er skemmtilegast við starfið þitt?
Skapa nýja hluti og sjá hugmyndir mínar verða að veruleika. Einnig að verkin mín skipti máli fyrir íslenskan ullariðnað.

Hvað er fram undan?
Nýjar værðarvoðir úr nýrri bandtegund, nýtt handprjónaband og ný prjónabók. Einnig ráðrúm til að gera fleiri skúlptúra sem ég hef unnið m.a. úr rafmagnsvír og sömuleiðis saumuð verk sem ég vinn ýmist í vél eða höndum.

 

MYND/ Rakel Rún Garðarsdóttir

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing