Fátt er eins hátíðlegt um áramót og freyðandi vín. Til eru margar gerðir af slíkum vínum og kampavínin eru sennilega í fararbroddi en vín eins og Prosecco, Cava, Crément og ýmis freyðivín eru líka afar áhugaverð og góð. Einungis vín frá kampavínshéraðinu Champagne geta kallast kampavín og þau verða að lúta að ákveðnum reglum. Nútíminn fékk leyfi frá Gestgjafanum til að birta þessar áhugaverðu upplýsingar!
Þrjár meginþrúgur eru notaðar í kampavín, chardonnay, pinot noir og pinot meunier. Standi utan á flösku „blanc de blanc“ inniheldur vínið eingöngu chardonnay-þrúguna. Kampavín eru gerð með svokallaðri hefðbundinni aðferð eða „méthode champenoise“ en þá á seinni gerjunin sér stað í flöskunni. Cava-freyðivín koma frá Spáni og einungis vín sem eru búin til þar geta kallast Cava, þar er notuð sama aðferð og gert er í kampavínsframleiðslunni en þrúgurnar eru oftast macabeo, xarello og parellada. Prosecco kemur frá Ítalíu, nánar tiltekið frá Veneto- og Fruili-héruðum en þar er notuð þrúga sem kölluð er glera.
Ýmis skemmtileg freyðivín koma frá Frakklandi en svokölluð Crémant-freyðivín eru búin til í mörgum héruðum þar en þau eru gerð með sömu aðferð og kampavínin en oftast eru notaðar aðrar þrúgur og vissulega er jarðvegurinn misjafn sem plönturnar vaxa í. Mörg ný heimslönd framleiða einnig skemmtileg freyðivín svo úrvalið er orðið fremur gott í Vínbúðunum.
Gott er að hafa í huga að freyðivín eru best framreidd við u.þ.b. 8°C.