Umsjón/ Guðný Hrönn
Myndir/ Rakel Rún Garðarsdóttir
Nafn: Hólmfríður Ólafsdóttir
Menntun: BA í guðfræði/djáknafræðum. Sveinspróf í klæðskurði. Kvöldnámskeið í Myndlistarskóla Kópavogs.
Starf: Djákni í Bústaðakirkju og hópstjóri í Sorgarmiðstöðinni. Einnig hef ég verið að sauma og hanna klæði fyrir presta og djákna.
Facebook-síða: Arthofy
Hólmfríður Ólafsdóttir, djákni og ástríðumálari, notar myndlistina sem hugleiðslu. Nýverið fengum við að gægjast inn á vinnustofuna hennar og skoða þau verk sem hún hefur verið að vinna undanfarið, einnig fengum við hana til að svara nokkrum spurningum um myndlistarsköpunina og komumst þá að því að henni þykir skemmtilegast að mála fólk, hesta og landslag. Innblásturinn kemur út öllum áttum að hennar sögn og er hún oftar en ekki með hugann við næsta málverk.
Hvernig listamaður ert þú? „Ég er ástríðumálari, mála allt sem mér dettur í hug.“
Í hvaða miðil vinnur þú helst? „Ég nota olíu- og akrýlmálningu, stöku sinnum vatnsliti.“
Hvenær fórstu að sinna myndlistinni? „Hef alltaf verið teiknandi, alveg síðan ég var barn og ég ætlaði að verða málari þegar ég yrði stór. Ég byrjaði þó ekki að mála fyrr en um tvítugt en svo að alvöru fyrir sjö árum síðan.“
Hvaðan kemur innblásturinn? „Innblásturinn kemur úr lífinu, náttúrunni og öllu því sem fyrir augu ber. Ég sé málverk fyrir mér alls staðar. Skemmtilegast þykir mér að mála landslag, hesta og fólk.“
Hvernig hefur stíllinn þinn þróast í gegnum árin? „Fyrst þegar að ég var að mála var ég mjög akkúrat og sparaði málninguna verulega, ég bar hana mjög þunnt á en nú nota ég spaða, pensla og allt mögulegt til þess að ná fram þeirri áferð sem ég vil fá. Ég nota mismunandi undirlag líka en vinn þó oftast ofan á striga.“
Hvernig er ferlið, frá hugmynd að fullkláruðu verki? „Ég er svona ástríðumálari og þegar að ég fæ hugmynd þá fæ ég hana á heilann og verð bara að koma henni á striga sem fyrst. Stundum dreymir mig meira að segja það sem ég er að fara gera. Ég byrja á að teikna upp það sem ég er að hugsa og svo dembi ég mér bara í málverkið. Oftast dett ég bara inn í þetta eins og góða bók og eftir 2-3 klukkutíma er komin einhverskonar mynd sem þarf svo að skerpa á og laga. Oftast er ég fljót að vinna og ef að frumstigið er þannig að mér líki vel þá klára ég þetta fljótt.“
Hvernig myndir þú lýsa vinnustofunni þinni? „Hún er kósí og staður sem mér líður vel á, minn griðastaður.“
Hvað þykir þér ómissandi að hafa á vinnustofunni? „Það verður að vera góður stóll sem ég get sest í og virt fyrir mér verkið sem ég er að gera, svo þarf að vera stutt í kaffivél. Svo er alltaf til súkkulaði til þess að ná sér í smá orku.“
Á hvaða tíma sólarhringsins finnst þér best að vinna? „Snemma á morgnana áður en ég fer til vinnu, svo nota ég laugardagana oft og stundum kvöldin.“
Áttu þér uppáhaldsverk af þeim þú sjálf hefur gert? „Já, reyndar tvö. Bæði eru þau af dóttur minni, annað er portrettmynd sem ég gerði af henni þegar hún var lítil og svo önnur sem er frá Þingvöllum.“
Hvaða litir eða litasamsetningar heilla þig mest? „Ég er nú í öllum litaskalanum held ég…en kannski mest í bláum, hann heillar mig og andstæðir litir eins og appelsínugulur og rauður. Það er gaman að vinna með andstæða liti. Svo get ég alveg dottið í bleikan og ljósa liti. Litavalið fer oft bara eftir því hvernig skapi ég er í þegar ég mála, ég sé oftast tilfinningar í litum.“
Hvað er það besta við að sinna myndlistinni? „Myndlistin er mín núvitund og besta verkfærið fyrir mig til að kúpla mig út úr vinnunni. Með henni get ég gleymt stað og stund og náð að hugsa bara um málverkið og það sem ég er að gera.“
Hvar fást verkin þín? „Ég er með Facebook-síðu sem heitir Arthofy og þar er hægt að sjá myndirnar mínar og senda mér skilaboð.“
Hvað er fram undan? „Ég hef nýlokið við sýningu í Vestmannaeyjum en ég starfa með Lista- og menningarfélagi Vestmannaeyja. Það var þriðja einkasýningin mín. Ég mun svo taka þátt í
samsýningu í sumar á Goslokahátíð þeirra Eyjamanna. Svo getur verið að ég haldi einkasýningu þar, það á eftir að koma í ljós.“
ÁHUGASAMIR GETA SKOÐAÐ VERK HÓLMFRÍÐAR Á FACEBOOK-SÍÐU HENNAR OG EINNIG FYLGST ÞAR MEÐ NÆSTU SÝNINGUM HENNAR.