Auglýsing

„Þú hefur ekki rödd í samfélaginu eftir sjötugt“

Um þessar mundir stendur yfir sýningin Ég lifi enn – sönn saga í Tjarnarbíói. Leikkonurnar Halldóra Rósa Björnsdóttir, Ingibjörg Gréta Gísladóttir og Þórey Sigþórsdóttir eru bekkjarsystur úr Leiklistarskóla Íslands og halda upp á 30 ára leikafmæli sitt með sýningunni. Kveikjan að verkinu er staða og viðhorf til eldra fólks í samfélaginu. Leikkonurnar segja að inntak verksins sé virðing fyrir manneskjunni, ást og kærleikur gagnvart fólki og að við berum öll ábyrgð á velferð okkar og því hvernig við eldumst.

Texti: Ragnheiður Linnet*
Myndir: Rakel Garðarsdóttir
Förðun: Elín Hanna Ríkarðsdóttir


 

Þær Halldóra, Ingibjörg og Þórey útskrifuðust árið 1991 úr Leiklistarskóla Íslands. Þegar þær áttu 30 ára útskriftarafmæli langaði þær af því tilefni að hittast saman á sviðinu en vegna Covid var það ekki hægt – fyrr en nú. Þær höfðu hist nokkrum sinnum áður en þær ákváðu að stíga saman á svið í þessu verki en þá hafði Þórey ásamt Rebekku A. Ingimundardóttur farið af stað með verkefni innblásið af síðasta æviskeiðinu. Halldóra, Þórey og Ingibjörg fundu hversu náið þær höfðu í raun unnið saman í Leiklistarskólanum og það var því úr að þær mætast saman á sviði í fyrsta sinn eftir þessi 30 ár í sýningunni Ég lifi enn – sönn saga.

„ÞÚ HEFUR EKKI RÖDD Í SAMFÉLAGINU EFTIR SJÖTUGT“

Hver var kveikjan að því að setja upp þetta verk? „Löngun til að safna sögum og reynslu frá þeirri kynslóð sem er nú að hverfa, til að vekja fólk til umhugsunar um það hvernig veruleiki mætir
okkur þegar við eldumst og minna á það að við höfum sjálf áhrif. Mig langaði að gera sýningu sem væri ekki hefðbundin og hafði samband við Rebekku A. Ingimundardóttur en hún er listrænn stjórnandi að verkinu sem er jafnframt skrifað af henni, mér, Ásdísi Skúladóttur og leikhópnum. Þegar ég hafði samband við Rebekku kom í ljós að hún hafði verið að setja fókus á eldra fólk í sínu markþjálfastarfi. Við fengum listamannalaun til að vinna að þróun hugmyndarinnar. Við komum inn í verkefni hjá Reykjavíkurborg sem kallast Augnablik-Ég á mér rödd sem var valið eitt af verkefnum til að hjálpa eldra fólki til að komast út úr einangrun eftir Covid. Við héldum vinnusmiðjur í öllum félagsmiðstöðvum eldri borgara í Reykjavík. Þar unnum við með öndun, rödd og markþjálfun og söfnuðum reynslusögum. Þannig fengum við tækifæri til að kynnast öllu þessu fólki og nýr heimur opnaðist,“ segir Þórey.

Þórey, Halldóra og Ingibjörg höfðu hist nokkrum sinnum þegar þær ákváðu að þær myndu allar stíga á svið saman í þessu verki. Þær fundu hversu náið þær höfðu í raun unnið saman í Leiklistarskólanum og þetta varð því úr. Þær stöllur segja að verkefnið og hópvinnan hafi verið einstaklega gefandi ferðalag og gaman að sjá hvernig fólkið í Breiðfirðingakórnum, sem tekur þátt í sýningunni hafi verið tilbúið að fara út fyrir kassann. „Í skólanum vörðum við tíma saman frá átta á morgnana til sjö á kvöldin að meðaltali – þannig að samband okkar varð dálítið eins og
systrasamband,“ segir Halldóra. Þó að við séum í raun mjög ólíkar og vorum ekki svo nánar meðan á náminu stóð.“ „Við náttúrlega gengum í gegnum ýmislegt saman eins og gerist þegar námið er svona stíft þannig að við þekkjum hver aðra mjög vel. Við þekkjum mörk hverrar annarrar og gátum því strax unnið þétt og náið saman. Þetta er forgjöf inni í vinnu listamannsins,“ segir Ingibjörg.

Halldóra segir að þeim hafi líka þótt spennandi tilhugsun að gera eitthvað saman í tilefni af afmælinu, það hafi verið kveikjan. „Við lásum saman þrjá einleiki sem við höfðum unnið í skólanum um lífið og tilveruna. Í framhaldinu drógum við svo fram örleikrit eftir Samuel Beckett, Komið og farið sem við höfðum leikið saman í á skólaárunum. Það fjallar um hvernig lífið fer í hring og hvernig við mannfólkið tengjumst. Þetta leikrit hjálpaði okkur að tengja við verkið sem Þórey var farin af stað með ásamt Rebekku en þær höfðu þá fengið handritsstyrk og voru byrjaðar að móta handritið. Á einhvern hátt var leikskáldið Beckett alltaf að banka upp á. Það var t.d. kveikjan að því að kalla „systurnar“ inn í verkið. Þannig fléttaðist það saman við að móta sýninguna,“ segir Halldóra.

Þær stöllur segja að í verkinu sé gagnrýni á kerfið, þ.á m. heilbrigðiskerfið og hvernig komið er fram við eldra fólk. Þær vilja vekjameðvitund um þetta. „Það er svolítið lygilegt að öll erum við með dæmi um framkomusem ætti ekki að líðast í kerfinu, það er verið að gera margt gott en við þurfum að vera vakandi fyrir því að fólk geti elst af virðingu og með reisn. Og að við finnum það. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við horfum á fólk og hvernig við hlustum á fólk í kringum okkur,“ segir Þórey.

Ingibjörg segir að allar þessar sögur sem eru sagðar í verkinu séu sagðar af virðingu og hlýju en líka með léttleika.

„Það má taka fram, sem kemur fram í leikverkinu, að orðið öldrun er 50 ára gamalt, það er fallegt orð. Það er um að eldast frekar en að verða gamall,“ skýtur Halldóra inn í.

Það er margt sem fylgir því að eldast, mikil lífsgæði eru kannski farin. Er tekið á þessu í leikritinu? „Já. Það er oft löng bið eftir þjónustu og rándýrt að kaupa t.d. heyrnartæki sem er þáttur í ákveðnum lífsgæðum. Maður hugsar kannski hvernig get ég breytt þessu og hvernig kem ég fram við þá sem eldast? Við erum allar málpípur okkar fólks. Maður upplifir stundum að fólk verði að hafa einhvern talsmann með sér þegar það kemur eitthvað upp á. Þegar fólk veikist þarf það einhvern „varðhund“ með sér, maður getur ekki alveg treyst því að kerfið geri það sem þarf, einhvern sem er ákveðinn og segir: Nú þarf rannsókn! Það er margt sem þarf að laga en ýmislegt hefur þó breyst til hins betra sem betur fer. Fólk lagðist í kör eða henti sér fyrir björg á Íslandi þegar það var orðið gamalt af því það var of marga munna að metta,“ segir Þórey.

Fólk verður eldra í dag en áður, sumir búa við ágæta heilsu en aðrir fjölþætt heilsufarsleg vandamál. Finnst ykkur fólki vera nægjanlega mætt á forsendum þess, setjum við alla aldraða undir einn hatt? „Já, við setjum fólk allt of mikið undir einn hatt. Til dæmis hvernig hefur verið talað við aldraða og litið á þá. Þegar tengdamóðir mín lá inni á spítala kom starfsmaður og sagði: „Þegar þetta brotnar þá þarf það að liggja svo lengi og á erfitt með að anda dýpra og þá fer slímið að safnast fyrir og þá fær það sýkingu og deyr.“ Og þetta sagði hún við mig, hún talaði ekki við tengdamóður mína.

Það er yfirhöfuð of mikil áhersla á lyfjagjöf í stað annarra úrræða. Í mörgum tilfellum mætti nýta sér fleiri úrræði, sjúkraþjálfun, sálfræðiþjónustu, nudd og óhefðbundnari læknisaðferðir til að heila fólk. Oft er verið að „setja plástur“ á sárin þegar rótin að vanlíðan liggur kannski dýpra. Þörfinni er ekki mætt. Það er verið að hrúga lyfjum í fólk. Fólk er oft með kvíða sem er kannski ekki meðhöndlaður og það fær lyf því að fólki finnst svo óþægilegt að horfa upp á það að einhverjum líði illa. Þá er gefin pilla og fólk verður ruglað af þessum lyfjum. Maður heyrði sögur frá fólki, það var kannski talið að það væri komið með minnisglöp en svo kom í ljós að það var á svo mörgum lyfjum og orðið hálfruglað af þeim. Það er ekki hægt að horfa fram hjá þessu og spyrja: Af hverju erum við ekki að gera betur? Karakterinn sem ég leik segir: „Það er ódýrara að lyfja fólk en ráða fólk“,“ segir Ingibjörg.

 

*Þetta var brot úr ítarlegra forsíðuviðtali Vikunnar

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing