Auglýsing

Hólmgeir Baldursson: „Vegna þess­ara tíma­móta er komið að því að end­ur­vekja Skjá 1“

Hólmgeir Baldursson, áhugamaður um sjónvarp sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að; „Vegna þess­ara tíma­móta er komið að því að end­ur­vekja Skjá 1.“

„Minn bak­grunn­ur er út­gáfa og út­leiga kvik­mynda, fyrst á vhs og síðar á dvd-disk­um hér heima og í Bretlandi. Sjón­varp var svo­lítið á öðru plani enda tækni­hlut­inn mik­il völ­und­ar­smíð, en ég réðst þó í að stofna Skjá 1 og koma þeirri ágætu stöð í loftið um þetta leyti árið 1998. Skjár 1 fagn­ar því 25 ára út­send­ing­araf­mæli.“

Hólmgeir endurvakti stöðina í gegnum streymi á tímum Covid-faraldursins en nú stendur til að færa sig yfir í línulega dagskrá þar sem kvikmyndir og þættir verða meðal annars sýndir.

Hólmgeir segir að eins langt aftur og hann man hafi  umræðan um rík­is­stuðning við sjón­varp verið há­vær en efnd­ir verið eng­ar.

Íslenskar sjónvarpsstöðvar týnt tölunni

Hann bendir á að íslenskar sjónvarpsstöðvar hafi týnt tölunni hver á fætur annarri síðustu misseri: ÍNN, Hringbraut og N4 og fleiri hafi komið og farið á undanförnum árum.

„Umræðan um nafnið Skjá 1 er bara skemmti­leg að mínu mati og káss­ast lítið upp á mig, en ég var aldrei hrif­inn af því að þeir sem keyptu rekstr­ar­fé­lagið af mér um mitt ár 1999 skyldu ekki hafa meiri metnað í að koma með nýtt nafn í stað þess að skrum­skæla mitt. Sú stöð varð svo að Sjón­varpi Sím­ans fyr­ir rest, óviðkom­andi mínu skráða hug­verki. Skjár 1 stend­ur því enn sem virðulegt stöðvar­heiti, hokið af reynslu á sjón­varps­markaði og því al­gjör­lega óþarfi að koma með ein­hverja Stöð 7 þegar svona gott nafn er enn fyr­ir hendi.“

Hólmgeir talar svo um rekstrarumhverfi innlendra afþreyingarmiðla og segir það erfitt. „RÚV trón­ir á toppn­um sem það sjón­varp sem ryk­sug­ar til sín al­manna­fé fyr­ir millj­arða ár­lega, en þrátt fyr­ir líf­leg­ar umræður í 25 ár hef­ur ná­kvæm­lega ekk­ert breyst. Al­gjör­lega töpuð bar­átta þar sem ráðamenn þjóðar­inn­ar sjá enn ekki sóma sinn í að styðja við inn­lenda afþrey­ing­armiðla í sam­keppni við RÚV og er­lend­ar streym­isveit­ur.“

Vegna þess­ara tíma­móta er komið að því að end­ur­vekja Skjá 1

Hólmgeir segir í pistli sínum að hann hafi skráð sig úr Sjálf­stæðis­flokkn­um til að geta bet­ur varið þá skoðun sína að reka ópóli­tísk­an afþrey­ing­armiðil án hags­muna­gæslu fyr­ir einn eða neinn.

„Það var ekki fyrr en Silf­ur Eg­ils varð það afl í póli­tískri umræðu á nýrri sjón­varps­stöð að eitt­hvað var verið að hnippa í „strák­inn með nýju stöðina“ til að koma ákveðnum sjón­ar­miðum að, en á minni rekstr­artíð með Skjá 1 ræddi ég aldrei við þátta­stjórn­end­ur um annað en að virða sjálf­stæða dag­skrár­gerð og frelsi rit­stjóra.“

Hólmgeir rifjar svo upp að hann hafi sett stöðina aftur í gang á streymi og skemmt með ókeypis afþreyingu í tæpa níu mánuði um 48 þúsund manns sem sátu heima í og úr sóttkví.

„Vegna þess­ara tíma­móta er því komið að því að end­ur­vekja Skjá 1, enda allt þegar þrennt er og í raun eru markaðsaðstæður fyr­ir sjón­varps­stöð hvorki betri né verri nú en 1998.“

Timb­urmannaþátt­ur á laug­ar­dags­eft­ir­miðdegi fyr­ir þá sem eru að staul­ast á lapp­ir fram eft­ir degi.

„Skjár 1 ætl­ar sér „bara“ að sinna línu­legri dag­skrá með „retró“ bíó­mynd­ir og gamla sjón­varpsþætti sem ég setti á dag­skrá 1998, bara af því að það er eng­inn að gera það í dag, og skapa stöðinni sér­stöðu á lif­andi sjón­varps­markaði fyr­ir áhuga­sam­ar nýj­ar kyn­slóðir áhorf­enda. Hver veit nema gaml­ir kunn­ingj­ar komi aft­ur í formi „póli­tískra spjallþátta“ eða timb­urmannaþátt­ur á laug­ar­dags­eft­ir­miðdegi fyr­ir þá sem eru að staul­ast á lapp­ir fram eft­ir degi. Aldrei að vita.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing