Auglýsing

Eigendur Bláa lónsins ábyrgir fyrir öryggi hundruði gesta: „Þeir spila rússneska rúllettu með líf gesta og starfsmanna“


Eigendur Bláa lónsins eru ábyrgir fyrir öryggi þeirra gesta sem sækja náttúrulindina þrátt fyrir að Almannavarnir hafi lýst yfir óvissustigi í samráði við Ríkislögreglustjóra og lögreglustjórann á Suðurnesjum. Lesendum Nútímans blöskraði frétt miðilsins í gær þar sem fram kom að uppselt væri í lónið dag eftir dag þrátt fyrir að raunveruleg hætta væri á eldgosi aðeins nokkrum kílómetrum frá náttúrulindinni.
Nútíminn vildi komast til botns í því hver það væri sem bæri ábyrgð á lífi og limum þeirra hundruða ferðamanna sem sækja Bláa lónið ef ein alvarlegasta sviðsmynd mögulegs goss myndi raungerast. Til þess að útskýra þetta nánar að þá þarf að skoða viðvörunarstig Almannavarna en þau eru þrjú. Í dag er svokallað óvissustig sem nær yfir þá atburðarás sem er hafin og ætla má að geti leitt til þess að öryggi fólks og/eða byggðar sé stefnt í hættu.
Á vefsíðu Almannavarna segir orðrétt: „Á þessu stigi hefst samráð milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar. Athuganir, rannsóknir, vöktun og mat er aukið. Atburðurinn er skilgreindur og hættumat framkvæmt reglulega til að meta stöðuna hverju sinni.

Hættustig veitir yfirvöldum víðtækar heimildir

Næsta stig er svokallað „Hættustig“ en því er lýst yfir þegar hættumat leiðir í ljós að hætta fer vaxandi og grípa verði til tafarlausra ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa. Með því að lýsa yfir hættustigi að þá fær Ríkislögreglustjóri og, í þessu tilfelli, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, auknar heimildir til þess að takmarka aðgang að ákveðnum svæðum, rýma þau eða jafnvel alfarið loka fyrir alla umferð. Það er á þessu stigi sem yfirvöld myndu fá heimild til þess að loka Bláa lóninu án nokkurs samráðs við eigendur þess.

En afhverju er Nútíminn að spá í þessu? Jú því það hefur verið nokkuð óljóst, miðað við viðtöl við rekstraraðila Bláa lónsins og forsvarsmenn Almannavarna í fjölmiðlum, hver hafi í raun og veru vald til þess að loka þessum fjölsóttasta ferðamannastað Íslands. Það er nefnilega engum blöðum um það að fletta að ástandið á svæðinu er grafalvarlegt ef miðað er við þróun á landrisi og staðsetningu þess. Einhverjir sérfræðingar hafa jafnvel talið að ef til eldgoss kæmi á svæðinu þá hefðu forsvarsmenn Bláa lónsins jafnvel aðeins nokkrar mínútur til þess að rýma svæðið og koma fólki í öruggt skjól.

Eigendur Bláa lónsins hafa sekúndur – ekki klukkustundir

Þess ber að geta að sú sviðsmynd sem lýst er hér að ofan er ein sú alvarlegasta af mörgum sem Almannavarnir hafa rýnt í. Hún er þó ekki talin ólíklegri en aðrar. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands, benti til dæmis á þessa mögulegu sviðsmynd þegar Morgunblaðið ræddi við hann. Þar kom fram að Þorvaldur teldi að ef alvarlegasta sviðsmyndin myndi raungerast  – ef kvika færi að rísa til yfirborðs við Illahraunsgíga – gæti hraunbreiðan frá gosinu jafnvel náð baðstað Bláa lónsins á aðeins 180 sekúndum.

Sérfræðingar sem Nútíminn hefur rætt við hafa allir verið sammála um það að ef til eldgoss kæmi á svæðinu að þá gæfist ekki einu sinni tími til þess að hækka viðvörunarstig Almannavarna áður en möguleg hraunbreiðan myndi ná til bæði baðstaðarins sem og hótelsins sem Bláa lónið á og rekur. Óvissan er algjör og eins og staðan er í dag veit enginn hvenær eða hvort yfir höfuð það komi til með að gjósa á svæðinu. Eitt er þó ljóst, eins og farið hefur verið yfir hér í þessari frétt, að ef það byrjar að gjósa í nágrenni við Svartsengi og Bláa lónið að þá fer af stað atburðarrás sem mun þróast mjög hratt og sá tími sem eigendur Bláa lónsins hafa til þess að grípa til ráðstafana talinn í sekúndum en ekki mínútum eða klukkustundum.

Rússnesk rúlletta með líf hundruði einstaklinga

Hvað þýðir þetta þá? Þetta þýðir að einn af ríkustu mönnum landsins, Grímur Sæmundsen sem er einn af meirihlutaeigendum lónsins, ásamt stærstu lífeyrissjóðum landsins bera fulla ábyrgð á því líkamstjóni sem gestir staðarins gætu mögulega orðið fyrir ef til eldgoss kæmi á svæðinu. Innanbúðarmaður í viðbragðsteymi yfirvalda orðaði það svona: á hverjum einasta degi á meðan landris og jarðhræringar halda áfram á svæðinu.

En afhverju loka þá ekki eigendur Bláa lónsins þessum fjölsóttasta ferðamannastað landsins og koma þannig í veg fyrir mögulegt manntjón? Afhverju er verið að taka áhættu þegar óvissan er jafn mikil og raun ber vitni. Nútíminn hefur sent fyrirspurn til þeirra sem koma að rekstri staðarins og spurt nákvæmlega um þetta. Beðið er eftir svörum en þó eru fleiri en einn og fleiri en tveir sem halda því fram á samfélagsmiðlum að þarna ráði einfaldlega græðgin för. Þeir sem hafa lesið í ársreikninga félagsins telja að daglegar tekjur Bláa lónsins séu einhversstaðar á bilinu 40-60 milljónir króna. Það er því ljóst að tugi milljóna myndu glatast á hverjum einasta sólarhring sem lónið væri lokað.

Ekki hefur náðst í Grím Sæmundsen sem, eins og áður hefur komið fram, er einn stærsti einstaki hluthafinn í Bláa lóninu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing