Nútíminn fékk senda tilkynningu frá Almannavörnum varðandi SMS-sendingar sem íbúar í Reykjanesbæ hafa fengið í morgun. Rætt var við Hjördísi Guðmundsdóttur, samskiptastjóra Almannavarna, nú í hádeginu en hún sagði það mjög algengan misskilning að kerfið virki þannig að hægt sé að koma í veg fyrir að aðrir en þeir sem eru í nálægð við svæðið fái umrædd SMS-skilaboð.
„Neyðarlínan á kerfið. Okkar vinna snýst fyrst og fremst að koma réttum skilaboðum til almennings – ekki síst til íbúa Grindavíkur.“
Tilkynningin er eftirfarandi:
Algengur misskilningur að hægt sé að tryggja að SMS skilaboð berist í öll símtæki.
Váboðskerfi Neyðarlínunnar (sms sendingar), sem viðbragðsaðilar á Íslandi (þ.á.m. lögreglan og Almannavarnir) notar er nýtt til að koma skilaboðum til fólks þegar rétt þykir og ákveðið af þeim sem hefur forsvar aðgerða hverju sinni.
SMS kerfið virkar þannig að óskað er eftir því að skilaboð berist til fólks á ákveðnu landsvæði (hnitin send á símafyrirtækin ásamt texta). Kerfi símafyrirtækjanna reikna út hvaða símar eru á svæðinu og sendir því næst boðin í þá. Tæknin (kerfið) býður ekki upp á það að hægt sé að tryggja að öll tæki innan svæðisins fái skilaboðin og að tæki utan svæðisins fái þau ekki.
Að skilaboð berist ekki í síma innan svæðis eða í síma utan svæðis gerist og talið er að tilfellin séu um 9-10%. Þrátt fyrir þessa annmarka hafa SMS skilaboðin gagnast vel og þjónað sínum tilgangi.
Það er algengur misskilningur að hægt sé að tryggja það að SMS skilaboð berist í öll símtæki sem staðsett eru á ákveðnu landsvæði eða innan „girðingarinnar“ sem sett er upp (hnit).
ALMANNAVARNIR