Grindvíkingar eru í sárum og sitja eftir húsnæðislausir í óvissuástandi þar sem fjölmörgum spurningum er ósvarað. Ein stærsta spurningin er hvar allar þær tæplega 1200 fjölskyldur eiga að búa á meðan fordæmalausar hamfarir ríða yfir samfélag þeirra. Vilhjálmur Árnason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, er einn þeirra fjölmörgu íbúa sem nú eru á vergangi en hann var staddur á fundi í þjóðaröryggisráði Sameinuðu þjóðanna í New York þegar stærstu skjálftarnir gengu yfir heimabæinn hans með tilheyrandi hamförum.
„…það er svo mikið af verktökum sem eru með tugi og hundruði íbúða sem eru tilbúnar“
„Þetta var eitthvað svo súrrealískt, ég náði varla að halda fókus á meðan það stóð yfir og var bara að fylgjast með í símanum hvað væri að gerast heima. Þá var verið að rýma bæinn. Ég átti að vera viku lengur en kom heim þarna á sunnudagsmorgninum,“ segir Vilhjálmur sem vill að bæði fjármálastofnanir og ríkið komi að því að leysa húsnæðisvanda íbúa Grindavíkur. Hann hefur kynnt sér málið rækilega en í viðtali við Frosta Logason á hlaðvarpsveitunni Brotkast fer hann yfir málið og segir lausnina meðal annars fólgna í hundruði lausra íbúða sem enn eru í eigu verktaka og byggingarfélaga.
Vill frystingu lána strax
„Við erum að upplifa það að það er fjöldinn allur af verktökum og fasteignasölum að benda okkur á að það er aragrúi af lausu húsnæði á þessum frostna íbúðamarkaði hér – leigumarkaðurinn er gríðarlega erfiður og dýr en það er svo mikið af verktökum sem eru með tugi og hundruði íbúða sem eru tilbúnar, bara setja gólfefni á og þá er hægt að flytja inn,“ segir Vilhjálmur en bendir á að vandamálið við það sé að eigendur þessara fasteigna, verktakar og fasteignafélög, geta ekki leigt þær því þeir þurfa pening til þess að komast í næsta fasteignaverkefni eða til þess að gera upp við fjármálastofnanir.
„Auðveldustu eignirnar eru nýbyggðar eignir sem verktakar eða fasteignafélög eiga sjálf. Þá segi ég að ef við fáum einhverja bið á íbúðalánin á húsnæðinu sem við megum ekki búa í að þá ættum við að geta fengið nýtt íbúðalán á þessa nýju fasteign og ríkið hjálpar okkur með því að koma með hlutdeildarlán – það kerfi væri þá útfært fyrir okkur þannig að ríkið sér um útborgunina. Þá erum við að borga af húsnæði, ekki leigu sem við fáum aldrei tilbaka aftur, heldur værum við að gera það sama og við erum að gera í Grindavík: að borga af húsnæðinu og eignast einhvern smá höfuðstól og þá brennur þessi peningur ekki upp,“ segir Vilhjálmur.
„Ef við erum að gera leigusamning – á ég að gera hann til þriggja mánaða, sex mánaða eða bara tveggja ára? Ég hef ekki hugmynd um það.“
Með þessi skapist ákveðið öryggi fyrir fjölskyldurnar í Grindavík – þær hafi þá fasta búsetu og slíkt myndi hafa gríðarleg áhrif á líðan þeirra 1200 fjölskyldna sem nú eru svo gott sem á götunni.
„Þá vitum við það að á meðan þetta óvissuástand ríkir að þá getum við búið á þessum fasta punkti. Svo þegar það er óhætt að flytja aftur til Grindavíkur að þá fáum við svigrúm, sex mánuði til eitt ár, að selja íbúðina sem við bjuggum í og þá fær ríkið stuðninginn tilbaka, meira að segja með þeirri ávöxtun ef húsnæðið hefur hækkað í verði, og við fáum kannski smá höfuðstól tilbaka. Hvað hefði gerst á meðan? Verktakinn hefði losnað við fjárfestingu sína og gæti þá haldið áfram að byggja. Þetta er fljótlegasta, auðveldasta og hagkvæmasta leiðin fyrir ríkið til þess að leysa þennan vanda og róar okkar líðan. Ef við erum að gera leigusamning – á ég að gera hann til þriggja mánaða, sex mánaða eða bara tveggja ára? Ég hef ekki hugmynd um það.“
Áhugavert viðtal við Grindvíkinginn Vilhjálm Árnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem segist sannfærður um að Grindavík muni byggjast upp að nýju og að fólki muni vilja snúa aftur til síns heima. Ekki missa af Spjallinu með Frosta Logasyni á hlaðvarpsveitunni Brotkast.