Annar þeirra tveggja manna sem situr í gæsluvarðhaldi vegna skotárásarinnar í Úlfarsárdal var fyrir stundu stunginn sjö sinnum á Litla-Hrauni. Samkvæmt heimildum Nútímans var árásarmaðurinn einn af betri vinum fórnarlambs skotárásarinnar í Úlfarsárdal. Stungumaðurinn situr sjálfur inni vegna skotárásar sem átti sér stað í bílastæðahúsi við Bergstaðastræti þann 13. febrúar árið 2022. Fyrir það var hann dæmdur í átta ára fangelsi.
Heimildarmenn Nútímans á Litla-Hrauni segja að skipulag við staðsetningu og eftirlit með föngum sé í algjörum ólestri. Það veldur því að fangaverðir á Litla-Hrauni eiga erfitt með að vita hvaða hópum í undirheimum Reykjavíkur hver og einn fangi tilheyrir. Samkvæmt sömu heimildum er árásin í dag sögð tengjast með óbeinum hætti „Bankastrætismálinu“ svokallaða – um er að ræða hefndaraðgerð sem varð til þess að umræddur gæsluvarðhaldsfangi hefur verið fluttur þungt haldinn á sjúkrahús.
Ekki er langt síðan að ráðist var á fanga á knattspyrnuvelli fangelsins og hann tekinn svæfingartaki og afklæddur án þess að fangaverðir yrðu þess varir.
„Ég get ekki tjáð mig um þetta strax. Lögregla er á vettvangi vegna atviks á Litla-Hrauni sem er verið að bregðast við. En við getum ekki gefið upp frekari upplýsingar,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við Vísi nú fyrir stundu.