Grétar Ólason er einn sá duglegasti á landinu þegar það kemur að ljósaskreytingum fyrir jólahátíðina. Á tímum hefur ljósadýrðin verið svo mikil að húsið hans hefur verið eins konar ferðamannastaður inni í byggð í Reykjanesbæ en þangað flykktust foreldrar með börnin sín og meira að segja ferðamenn komu á rútum til að sjá.
„Móðir mín var dugleg að skreyta og það má segja að ég hafi fengið þessa jólaljósabakteríu þá“
„Ég er búinn að vera að gera þetta á þessum stað, Týsvöllum 1, í tæp tuttugu og sex ár. Þegar mest var þá voru þetta tuttugu og fimm þúsund perur. Ég hef ekki haft tíma í að telja þær síðustu ár en þetta er heill hellingur,“ segir Grétar þegar Nútíminn hafði samband við hann á þessum fallega laugardegi. Grétar hafði þá nýlokið við að setja upp jólaskreytingarnar en hann er vanalega að klára á fyrsta degi aðventu.
En hvað kom til að hann byrjaði á þessu á sínum tíma?
„Ég hef alltaf gert þetta. Móðir mín var dugleg að skreyta og það má segja að ég hafi fengið þessa jólaljósabakteríu þá og ég hef í raun gert þetta frá því ég fór að búa. Þegar ég bjó á Smáratúni að þá var nágranninn minn duglegur að skreyta og ég sá ljósin hans út um gluggann hjá mér. Þá fór ég af stað og það var ekki aftur snúið,“ segir Grétar en hann hefur keypt öll sín jólaljós á Íslandi. Nú í seinni tíð þá hefur Grétar verið duglegur við að búa til skreytingarnar sjálfur.
„Já, ég ákvað að kaupa minna og búa til meira. Ljósahringurinn sem hangir utan á útidyrahurðinni hérna heima er til dæmis eitthvað sem ég bjó bara til sjálfur,“ segir Grétar sem hefur glatt ófá börnin í gegnum tíðina sem hafa komið „á rúntinum“ með foreldrum sínum að sjá húsið hans. En það hafa fleiri heimsótt húsið og glaðst yfir öllum jólaljósunum.
„Heldur betur,“ segir Grétar og hlær.
Hleypti heilli rútu á klósettið
„Hingað hafa komið heilu rúturnar af ferðamönnum og ég man alveg sérstaklega eftir því þegar það er bankað hérna heima hjá mér og þegar ég fer til dyra að þá eru þar tvær eldri konur sem höfðu þá verið hérna fyrir utan að dáðst að ljósunum. Ég kíki út og sé að þær eru ekki tvær á ferðinni heldur voru þær hluti af hóp af eldri borgurum sem höfðu komið hingað í Reykjanesbæ í ljósastemninguna. Þetta voru allt konur „á besta aldri“ og það skondna við þá heimsókn er að ég endaði á að hleypa þeim öllum á baðherbergið hjá mér því þær voru alveg í spreng.“
Ætlar þú að halda þessu áfram um ókomna tíð?
„Ég held þessu áfram á meðan ég bý í þessu húsi en það fer að síga á seinnihlutann. Við erum bara tvö hjónin eftir hér á Týsvöllum en við eigum fjögur börn og tíu barnabörn,“ segir Grétar sem ávallt gleðst yfir því að sjá svipinn á barnabörnunum þegar skreytingarnar eru komnar upp.
„Ég væri nú ekki besti afinn ef ég myndi allt í einu hætta að skreyta. Það hefur samt oft hvarflað að mér að taka mér frí frá þessu en svo í september og október að þá skýtur bakterían upp kollinum og ég byrja að hengja upp seríur,“ segir Grétar sem þykir það ekki leiðinlegt að gleðja börnin í Reykjanesbæ og í raun alla þá sem koma í bæinn að upplifa jólastemninguna.
Ljósmyndirnar tók Grétar sjálfur og fékk Nútíminn góðfúslegt leyfi hans til þess að birta þær hér! Við á Nútímanum elskum svona jólahús þannig að ef þú veist um fleiri þá þætti okkur vænt um að fá ábendingu á ritstjorn@nutiminn.is!