Auglýsing

Lárus lætur gott af sér leiða og aðstoðar einstaklinga með fíknivanda

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, er í dag stjórnarformaður Krýsuvíkursamtakanna sem reka meðferðarheimilið Krýsuvík. Lárus fann hjá sér löngun til að láta gott af sér leiða eftir að hafa sjálfur gengið í gegnum mikinn öldusjó og bauð fram aðstoð sína, en faðir hans hafði verið einn af stofnendum meðferðarheimilisins fyrir tæpum fjörutíu árum.

Hann ræddi málið í opinskáu viðtali við Frosta Logason á hlaðvarpsveitunni Brotkast og greindi meðal annars frá því hvað það var sem varð til þess að hann fór að starfa fyrir Krýsuvíkursamtökin.

„Fíknivandi er náttúrulega rosalega mikill fjölskyldusjúkdómur og skaðlegur. Sérstaklega fyrir börnin, þegar það eru börn á heimilinu eins og allir þekkja. Það er svo mikil gleði, hamingja og öryggi sem myndast með því að snúa einstaklingi sem er í fíknivanda úr fíkn og yfir í bata. Það góða við þessa fíknisjúkdóma er það að lyfið er einfalt og það kostar ekki neitt og það eru engar aukaverkanir af því – bara ef það tekst,“ sagði Lárus og bætti við að fyrstu tíu til tólf árin hafi faðir hans starfað fyrir samtökin ásamt mörgu góðu fólki eins og til dæmis Dr. Sigurlínu Davíðsdóttur og Ragnari Inga Aðalsteinssyni.

„Söfnunin hefur gengið vonum framar og það virðist vera góður andi í þessu“

„Þannig að hann er í þessu fyrstu tíu eða tólf árin og fór svo frá þessu. Hann var eiginlega búinn þá, eftir þennan tíma. Það fór mikil orka í þetta. Ég heyrði svo ekkert meira af Krýsuvík næstu tuttugu og fimm árin.“

En þú ert stjórnarformaður Krýsuvíkursamtakanna í dag?

„Já, það gerist þannig raunverulega að þegar ég er búinn með þessi málaferli, því síðasta lauk um 2020 ótrúlegt en satt, að þá myndaðist svigrúm í tíma hjá mér og þá tek ég ákvörðun um að vilja láta gott af mér leiða. Ég átti miklar fyrirmyndir í til að mynda tengdaföður mínum sem hefur átt mikla tengingu í Sólheima og í kollegum mínum í Bretlandi sem hafa tileinkað mikið af tíma sínum til góðgerðarmála og svo hef ég sjálfur verið í 12 spora samtökum í langan tíma,“ segir Lárus sem heyrði oft á fundum að menn voru að ná árangri með hjálp Krýsuvíkursamtakanna.

„Já, þá var ég alltaf að lenda á fundum með mönnum sem höfðu náð bata í Krýsuvík og ég fann það í gegnum þessi 12 spora samtök hvað það gaf manni mikið að hjálpa öðrum. Ég skildi sem svo að almættið væri að gefa mér skýr merki á þessum fundum og það vildi svo til að ég þekkti til framkvæmdastjórans sem var þá yfir Krýsuvík og ég hringdi í hann. Ég bauð fram aðstoð mína, ef það væri eitthvað sem ég gæti gert, og því var ágætlega tekið. Ég var kosinn í stjórn og við byrjuðum að styrkja innviðina og svo fyrr á þessu ári, í apríl, er ég kosinn stjórnarformaður Krýsuvíkursamtakanna.“

Það eru ótrúlega góðir hlutir að gerast á Krýsuvík.

„Já, þetta er þessi langtímameðferð sem er í þessari fjarlægð frá bænum og hefur bara gengið vel. Við höfum verið að safna fjármunum til þess að geta stækkað meðferðina og þá aðallega til þess að aðskilja þessa kvennadeild sem er mikilvægt svo þeim finnist öruggt og gott að geta verið í meðferð. Söfnunin hefur gengið vonum framar og það virðist vera góður andi í þessu. Húsið er gott og það er einhver svona kraftur í Krýsuvík, einangrunin gerir líka það að verkum að margir hafa fundið frið.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing