Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók einstakling í nótt í miðbæ Reykjavíkur sem var í svo annarlegu ástandi vegna ölvunar og fíkniefnaneyslu að lögreglumenn töldu ekki fært að hafa hann úti á meðal almennings. Hann var því handtekinn og vistaður í fangaklefa. Maðurinn var einn af tíu einstaklingum sem fengu að gista fangaklefa lögreglunnar í nótt en um níutíu mál voru skráð hjá lögreglu frá 17:00 í gær til klukkan 05:00 í morgun.
Töluvert var um einstaklinga í annarlegu ástandi og voru nokkrir þeirra sem þurftu aðstoð við að koma til síns heima.
Fundu ekki heimilið sitt sökum annarlegs ástands
Þó voru tveir einstaklingur, sem voru handteknir í annarlegu ástandi í sitthvoru hverfinu, sem lögreglan reyndi að aðstoða við að komast heim til sín en þær aðgerðir báru engan árangur og voru þeir því að lokum vistaðir í fangaklefa. Um var að ræða karlmann í hverfi 105 og konu í hverfi 107.
Þá ók ölvaður ökumaður bifreið sinni inn í garð og á tré sem þar var. Þetta átti sér stað í hverfi 108 en sem betur fer urðu engin slys á fólki. Fjarlægja þurfti bifreiðina með kranabíl. Ökumaðurinn var að sjálfsögðu handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Farið varlega
Þessi listi er alls ekki tæmandi – fjölmargir aðrir einstaklingar voru handteknir fyrir akstur undir áhrif vímuefna, akstur undir áhrifum áfengis, líkamsárása og eignarspjalla.
Nú þegar hátíð ljóss og friðar er að ganga í garð vill Nútíminn hvetja alla til þess að ganga hægt um gleðinnar dyr – hjálpa samborgunum sínum og koma vel fram við náungann.