Auglýsing

Sálfræðingur skellti á blaðamann: Braut siðareglur með viðtali við drengi Eddu Bjarkar

Ágústa Gunnarsdóttir braut siðareglur sálfræðinga þegar hún tók viðtal við þrjá unga drengi Eddu Bjarkar Arnardóttur án samþykkis föður þeirra. Viðtalið var tekið í gegnum fjarfundarbúnað þann 5. desember síðastliðinn að ósk Hildar Sólveigu Pétursdóttur, lögmanns Eddu Bjarkar.

Umræddri matsgerð var skilað inn, ásamt öðrum gögnum, af Hildi Sólveigu Pétursdóttur, lögmanni Eddu Bjarkar, þann 8. desember síðastliðinn til héraðsdóms Reykjavíkur. Edda Björk stefndi þá föður drengjanna og krafðist að aðfaragerð sýslumannsins í Reykjavík yrði látin niður falla. Líkt og Nútíminn greindi frá þá fékk lögmaður föður drengjanna frest til 21. desember til þess að skila inn greinargerð vegna málsins og því ljóst að aðalmeðferðin muni ekki fara fram fyrr en eftir áramót.

Ekkert samþykki lá fyrir

Þeir lögfræðingar og sálfræðingar sem Nútíminn hefur rætt við segja báða þessa aðila, bæði Ágústu og Hildi Sólveigu, hafa farið gróflega út fyrir valdsvið sitt með því að hafa óskað eftir viðtalinu, haft milligöngu um það og svo framkvæmt mat á drengjunum án þess að samþykki fyrir því hafi legið fyrir. Þessu er Hildur Sólveig ósammála.

Blaðamaður Nútímans hafði samband við Ágústu í dag en hún skellti á blaðamann og hefur engu svarað síðan. Henni var gefinn kostur á að svara fyrir umrætt mat sem hún framkvæmdi með hliðsjón af siðareglum sálfræðinga. Þá hefur Ágústa ekki svarað frekari símtölum eða skilaboðum sem henni hafa verið send.

„Hún hefur ekki haft nein áhrif á drengina.“

Í siðareglum sálfræðinga er varðar upplýst samþykki og valfrelsi stendur skýrum stöfum að samþykki þurfi að liggja fyrir hjá forsjáraðila. Samkvæmt lögmanni föðurs, Leifi Runólfssyni, lá samþykki ekki fyrir.

Skjáskot af siðareglum Sálfræðingafélags Íslands.

Nútíminn hafði samband við Ingibjörgu Markúsdóttir, formann siðanefndar Sálfræðingafélags Íslands, og spurði hvort sálfræðingur gæti framkvæmt mat á börnum undir 16 ára aldri án samþykkis forsjáraðila. Svarið var þetta:

„Almenna svarið við spurningu þinni er að sálfræðingar starfa eftir lögum um heilbrigðisstarfsmenn og einnig lögum um réttindi sjúklinga. Foreldrar sem fara með forsjá þurfa að veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð barns yngra en 16 ára en börn skuli eftir því sem kostur er höfð með í ráðum og alltaf ef þau eru 12 ára og eldri. Sálfræðingur sem gerir mat á barni eða veitir barni meðferð undir 16 ára aldri þarf því að hafa fengið samþykki foreldris/foreldra sem eru með forsjá.“

Ef háttsemi Ágústu er sett í samhengi við svar formanns siðanefndarinnar þá er ljóst að hún þverbraut siðareglur sálfræðinga.

Huldumenn sáu um fjarfundinn

Í matsgerðinni, sem ber nafnið „Könnun á vilja og afstöðu barna“ kemur fram að Ágústu var kunnugt um að faðirinn færi með forsjá drengjanna og að móðirinn sætti gæsluvarðhaldi í Noregi. Þá heldur Ágústa því einnig fram að hún viti ekki hverjum hafi verið falin umsjá þeirra. Þrátt fyrir það framkvæmir hún matið og segist hafa óskað eftir því að ræða við drengina einslega og í sitthvoru lagi. Ljóst er að einhver fullorðin var á hinum endanum samt sem áður enda mjög ólíklegt að þeir hafi af sjálfsdáðum sett upp fjarfundarbúnaðinn og skipulagt viðtölin.

„Hún braut engar siðareglur sálfræðinga,“ sagði Hildur Sólveig þegar Nútíminn spurði hana hvort Ágústa hefði farið út fyrir valdsvið sitt með því að framkvæma umrætt mat. Þegar henni var bent á greinina í siðareglunum sem fjallar um samþykki forsjáraðila þá sagði Hildur Sólveig að aðalmálið hafi verið að vilji drengjanna fengi hljómgrunn.

„Ég veit ekki hvar börnin eru. Ég veit bara að þau eru á öruggum stað.“

„Þessi skýrsla er mjög afdráttarlaus,“ sagði Hildur Sólveig og tók það fram að samkvæmt henni hallaði á föður drengjanna. Þeir hafi gert grein fyrir vilja sínum og að það væri að búa hjá móður sinni. Þá fullyrðir hún að drengirnir væru ekki undir áhrifum Eddu Bjarkar.

Því ber að halda til haga að Nútíminn fjallaði um vilja drengjanna eins og þeir lýstu honum sjálfir við sérfræðinga í Noregi áður en Edda Björk rændi þeim og flaug með til Íslands. Upplýsingar um það komu fram í réttarskjölum sem Nútíminn lét þýða og birti á dögunum í heild sinni. Þá taldi dómurinn enn fremur að mjög líklegt væri að Edda Björk myndi reyna að hafa áhrif á álit drengjanna á föður sínum ef hún fengi að vera með þeim eftirlitslaus.

„Þeir hafa allir talað við matsaðila og sagt skýrt að þeir vilji halda áfram að búa hjá föður í Noregi. Þessu héldu þeir ennþá staðfastlega fram þegar matsmaður talaði við þá að nýju, stuttu áður en aðalmálsmeðferð hófst,“ segir í norska dómnum. Núna – þegar drengirnir hafa verið í umsjá móður sinnar í yfir 20 mánuði þá hefur afstaða þeirra breyst og í raun tekið algjöra U-beygju.

Það gefur alveg augaleið að faðirinn gaf ekki samþykki fyrir þessu?

„Ég hef ekki kynnt mér siðareglur sálfræðinga og hugsaði fyrst og fremst um hagsmuni drengjanna og að þeirra rödd fengi að heyrast. Þeir eiga lögverndaðan rétt til þess samkvæmt Barnasáttmálanum og Mannréttindasáttmálanum,” segir Sólveig en hún vill halda því fram faðirinn vilji bæla niður rödd drengjanna þannig að hún fái ekki að heyrast.

„Það er þá skylda okkar hinna sem hafa með hagsmuni barnanna að gera að leyfa þeirri rödd fram að ganga.“

Í matsgerðinni kemur fram að þú hafir haft milligöngu um þetta viðtal sem Ágústa tók. Veist þú hvar börnin eru?

„Ég veit ekki hvar börnin eru. Ég veit bara að þau eru á öruggum stað.“

En hvernig gastu haft milligöngu um þessi viðtöl ef þú veist ekki hvar þau eru?

„Af því að ég veit um aðila sem veit hvar börnin eru. Á þeim tíma. Þau eru ekkert endilega þar lengur. Ég veit ekkert um það. Ég taldi þetta mikilvægt þannig að ég vildi koma þessu áfram og því var komið til leiðar að…“

Þannig að þú vissir ekki að Ágústa væri með þessu að brjóta siðareglur?

„Ég var ekkert að kynna mér það. Ég treysti bara Ágústu. Þetta er þrautreyndur sálfræðingur – þrælvön í forsjár- og umgengnismálum.“

Hvað viltu segja við þá sem halda því fram að Edda Björk hafi haft áhrif á drengina og þess vegna halda þeir því fram núna að þeir vilji ekki fara til föður síns?

„Hún hefur ekki haft nein áhrif á drengina.“

Hildur Sólveig vill að það komi fram að ekki sé verið að leita að drengjunum. Þetta segist hún hafa fengið staðfest frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Drengirnir séu í umsjá vina og vandamanna Eddu Bjarkar og að ekki sé hægt að segja að þeir séu í felum – þeim líði vel.

Réttarhöldin yfir Eddu Björk hefjast í Noregi eftir 6 daga eða 19. desember.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing