Auglýsing

Rannsóknarlögreglumaður frá Albaníu flúði til Íslands: Mafían vill hann feigan en Útlendingastofnun vill hann burt

Albanskur rannsóknarlögreglumaður á sextugsaldri hefur óskað eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi ásamt tveimur ólögráða sonum sínum eftir að mafían í heimalandi hans reyndi ítrekað að ráða hann af dögum.

Umsækjandinn heitir Andi Begaj en albanska mafían sprengdi í loft upp Volkswagen Passat-bifreið hans fyrir nokkrum árum. Þá hefur fjölskylda hans verið ofsótt og synir hans eltir heim úr grunnskóla sínum í borginni Vlora í suðvesturhluta Albaníu þar sem Andi bjó og starfaði.

Heimildarmaður Nútímans í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er á þeirri skoðun að Útlendingastofnun ætti að nýta sér tækifærið og fá Andi Begaj í lið með hérlendum lögregluyfirvöldum til þess að kortleggja albönsku mafíuna á Íslandi

Neitað um vernd

Þetta eru engar sögusagnir. Nútíminn hefur fengið í hendurnar gögn frá albönskum stjórnvöldum og ítarlegar lýsingar á þeim morðtilræðum sem Andi hefur orðið fyrir. Þá hefur Nútíminn einnig látið þýða albanskar fréttagreinar þar sem greint er frá tilræðunum – þeirra á meðal bílsprengjunni sem gjöreyðilagði Volkswagen Passat-bifreið hans.

Þrátt fyrir það hefur honum verið neitað um alþjóðlega vernd og allar líkur á því að íslensk stjórnvöld komi til með að senda Andi Begaj aftur til Albaníu sem er álitið „öruggt land“ að mati Útlendingastofnunar.

Hér er Andi ásamt kollegum sínum í lögreglunni í Albaníu.

Gögn staðfesta lögreglustörf

Saksóknarinn í Vlore hefur staðfest að Andi Begaj hafi starfað sem rannsóknarlögreglumaður í borginni og unnið að rannsókn á störfum mafíunnar þar í landi. Þá hefur ráðuneyti lögreglumála í Albaníu einnig staðfest að Andi hafi starfað fyrir lögregluna og það hefur innanríkisráðuneyti landsins einnig gert. En þrátt fyrir þetta allt saman vill Útlendingastofnun vísa honum úr landi. Málið er nú til meðferðar hjá Kærunefnd Útlendingamála.

Heimildarmaður Nútímans í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er á þeirri skoðun að Útlendingastofnun ætti að nýta sér tækifærið og fá Andi Begaj í lið með hérlendum lögregluyfirvöldum til þess að kortleggja albönsku mafíuna á Íslandi en samkvæmt heimildum hefur starfsemi þeirra vaxið gríðarlega á undanförnum árum hér á landi.

Óvíst að Ríkislögreglustjóri viti af Andi

„Ríkislögreglustjóri ætti að sjá hag sinn í því að fá þennan mann til liðs við okkur. Embættið ætti að stíga inn í þetta mál því miðað við gögnin ykkar að þá yrði hann ansi góð viðbót við lögregluna – þá sérstaklega núna þegar glæpamenn frá Albaníu flæða jafn óhindrað inn í landið og raun ber vitni,“ sagði einn heimildarmanna Nútímans innan lögreglunnar en hann taldi óvíst að yfirmenn sínir vissu yfir höfuð að umræddur maður væri að sækja um vernd hér á Íslandi.

Við munum á næstu dögum birta viðtal við Andi Begaj sem vill gefa íslensku lögreglunni góð ráð við því hvernig sé best að tækla eina hættulegustu mafíu í heimi sem nú þegar hefur skotið rótum í samfélagi okkar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing