Stofnandi og einn stærsti eigandi Meta, Mark Zuckerberg, ætlar að eyða rúmum 37 milljörðum í einbýlishús og hálfgert þorp á Hawai. Um er að ræða mörg stórhýsi auk neðanjarðarbyrgis sem verður rúmlega 400 fermetrar að stærð. Þetta kemur fram í umfjöllun WIRED en fréttaveitan hefur opinber gögn og dómsskjöl sem styðja þessa frásögn auk þess sem blaðamenn hafa farið á svæðið og aflað upplýsinga um þessa stórmerkilegu framkvæmd.
Eigandi Meta, sem meðal annars Facebook og Instagram falla undir, er búinn að byggja tæplega tveggja metra háan steypuvegg í kring um landareignina og eru þar öryggisverðir á vakt allan sólarhringinn. Allir þeir sem koma að uppbyggingu svæðisins þurfa að skrifa undir NDA-samning eða „Non Disclosure Agreement“ sem þýðir að enginn þeirra má tjá sig um nokkurn skapaðan hlut án þess að baka sér skaðabótakröfu – sem, ef við þekkjum Zuckerberg, gæti gert hvaða mann gjaldþrota nokkrum sinnum yfir lífsleiðina.
Með vatnslind í byrginu
Milljarðamæringurinn, sem er 39 ára gamall, ásamt eiginkonu sinni, Priscillu Chan, keyptu rúman ferkílómeter af landsvæði á Hawai árið 2021 sem var fyrrum sykurplantekra og sameinuðu það 13 ferkílómetra svæði þar sem lúxuseign þeirra er staðsett. Sú lúxuseign var á sínum tíma metin á 100 milljónir dollara eða tæpa 14 milljarða íslenskra króna.
Á eigninni verða yfir 30 svefnherbergi, 30 baðherbergi, ráðstefnuherbergi, iðnaðareldhús og fjölmargar lyftur. Þetta sýna opinbert gögn. Þá mun vandað jarðgangnakerfi tengja saman þessar eignir auk, eins og áður segir, rúmlega 400 fermetra neðanjarðarbyrgis. Byrgið verður byggt úr málmi og steinsteypu og verður algjörlega sjálfbært. Það þýðir að hvorki Zuckerberg eða gestir hans þurfa að hafa áhyggjur af því ef til heimstyrjaldar kæmi því í byrginu verða mat- og vatnslindir.
Umdeilt verkefni
Þetta fasteignaverkefni Zuckerbergs er samt sem áður þyrnir í augum íbúa á svæðinu sem saka stofna Facebook um að breyta hluta af eyjunni í nýlendu. Mótmæltu þau fyrirhuguðum áformum hans á svæðinu sem er staðsett í Kauai á Hawaí. Mótmælendurnir fóru af stað með undirskriftalista í gegnum vefsíðuna Change.org en þar stóð:
„Íbúa Hawaí hafa þurft að þola nógu mikið. Þau eiga skilið að eiga þetta land – það er þeim mikilvægt. Til hvers er hann að byggja þessi stórhýsi? Til þess að búa í Kauai í tvo mánuði á ári? Þetta er ómanneskjulegt. Þetta er sjúkt. Það þarf að stöðva hann.“
Mótmælin hafa sem vindur um eyru Zuckerbergs þotið og heldur uppbyggingin á svæðinu líkt og enginn sé morgundagurinn.