Auglýsing

Sölvi Tryggvason í opinskáu viðtali: „Ég var hættur að treysta lögreglunni“

Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason segir sig langt frá því að vera laus við alla galla en það hafi reynst honum mjög þungbært að vera ásakaður um að hafa beitt vændiskonu hryllilegu ofbeldi. Hann hefur nú gefið út bók þar sem hann talar mjög opinskátt um þennan erfiða tíma í lífi sínu en bókin heitir Skuggar.

„Alveg eins og ég segi frá í bókinni að þá er ég með fíknimunstur og fleiri hluti sem ég þurfti og þarf að taka á. Það sem gerist eftir að ég er sakaður um þennan glæp að þá koma fram ásakanir frá konum og ég hef aldrei tjáð mig um hvað gerðist á milli mín og þeirra og ég fjalla ekki einu sinni um það í bókinni,“ segir Sölvi í viðtali við Götustrákana, einum af fjölmörgum hlaðvarpsþáttum Brotkast.

„Ég ætla ekki að gera þeim það sem þær gerðu mér. Þeirra saga hefur heyrst opinberlega,“ segir Sölvi sem fer um víðan völl í viðtalinu og ræðir meðal annars yfirheyrsluna sem hann fór í á sínum tíma þegar umræddar ásakanir urðu að kærum.

„Það var mjög skrítið að vera mættur í yfirheyrslu. Ég var hættur að treysta lögreglunni á þessum tímapunkti af því að samfélagið var orðið svo skrítið. Ég held líka að það hafi ekki verið tilviljun að það voru tvær konur sem yfirheyrðu mig. Það var sumt í þessum yfirheyrslum sem var mjög skrítið. Ég sá það þegar ég fékk að lesa. Yfirheyrslurnar yfir þessum konum. Það var nánast verið að hrósa þeim fyrir að hafa mætt og peppa þær upp og það er ekki hlutverk lögreglunnar,“ segir Sölvi sem vill ekki leika eitthvað fórnarlamb.

„Maður verður samt að segja hlutina eins og þeir eru,“ segir Sölvi sem var einn af vinsælli fyrirlesurum hjá fyrirtækjum og stofnunum áður en hann var ásakaður um þennan hrottalega glæp – glæp sem annar maður var dæmdur fyrir.

„Ég byrjaði aftur með podcastið mitt en það var enginn að ráða mig í vinnu. Ég var beðinn um að halda fyrirlestra að jafnaði nánast í hverri viku og ég hef verið beðinn um að halda nákvæmlega 0 fyrirlestra frá því þetta gerðist,“ segir Sölvi sem þó ítrekar að hann sé ekki að biðja um vorkunn – hann sé bara að segja hlutina eins og þeir eru frá hans sjónarhorni.

„Auðvitað væri frábært að búa í samfélagi þar sem allir væru til í að taka slaginn fyrir þig en það er bara ekki þannig. Ég verð alltaf jafn hissa að hitta raunverulegt prinsipp fólk sem er að standa upp fyrir manni eða verja mann án þess að það sé eitthvað beinlínis undir hjá þeim.“

Einlægt og opinskátt viðtal við Sölva má nálgast á Brotkast!

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing