Brakandi nýtt völvublað Vikunnar fyrir árið 2024 er komið á vefinn og blaðið kemur í verslanir á morgun. Í blaðinu er að finna spá um ríkisstjórnina, heimsmálin, forsetahjónin og heilbrigðiskerfið.
Blaðamaður Vikunnar hélt á fund völvunnar í byrjun desember. Eftirvæntingin leyndi sér ekki enda var ferðin til þess gerð að fá að gægjast inn í framtíðina og komast að því hvað komandi ár ber í skauti sér. Hér er aðeins örlítið sýnishorn af mögnuðum spádómi völvu Vikunnar en hún hefur virkilega verið sannspá síðustu ár.
Áfram gular viðvaranir en gott sumarerfið, fjölmiða, náttúruhamfarir og gular viðvaranir sem einkenna árið en gott sumar bjargar geðheilsu þjóðarinnar.
Sviftingar verða í pólitíkinni, Sunneva Einarsdóttir brillerar á hvíta tjaldinu, Rurik Gíslason og félagar í Ice Guys slá í gegn.
Völvan tekur spilin aftur upp og gerir sig tilbúna fyrir næstu lögn. Hana langar að spá fyrir um veðrið. „Loftslagsbreytingar halda áfram að hafa áhrif á veðurfar hér á landi eins og annars staðar í heiminum. Þetta gerir það að verkum að þjóðin þarf enn að venjast óútreiknanlegum vetri þar sem alls konar viðvaranir gera endurtekið vart við sig um allt land. Veturinn verður þó ekki eins kaldur og snjómikill eins og oft hefur verið, hvorki á suðvesturhorninu né annars staðar á landinu. Það er helst fyrir norðan sem snjóþungi leggst á en þó skemur en undanfarin ár. Vorið verður fremur blautt, sérstaklega fyrir austan, en það fyrirgefst fljótt því sumarið verður enn heitara en það hefur verið undanfarin ár og það á öllu landinu. Munu sólríkir dagar með auknum hita vara lengur en áður hefur verið. Sumarið tekur sér ekki eins langan tíma og í fyrra til að byrja þó fyrstu dagarnir í júní verði kannski ekki mjög spennandi. Fólk ætti þó ekki að panta sér sólarlandaferðir yfir mitt sumarið því veðrið verður eins og best verður á kosið hér heima.“
NÁTTÚRUHAMFARIR OG ELDGOS
Þegar hér er komið sögu þyngist brún völvunnar. Hún sér fyrir áframhaldandi hamfaraógnir árið 2024. „Það verða áfram miklar jarðhræringar á komandi ári eins og á því sem nú er að líða, sérstaklega á Reykjanesinu. Það er eitthvað sem við erum kannski farin að venjast en það er meiri hræðsla og órói sem þessu fylgir en áður hefur verið,“ segir völvan og horfir stíft á spilin sem hún hefur lagt fyrir blaðamann. „Jarðskjálftar munu finnast vel í Reykjavík og á öllu höfuðborgarsvæðinu en einnig víðar. Grindvíkingar verða áfram í óvissu fram á næsta ár þó ég sjái ekki fram á gos inni í bænum. Stjórnvöld munu forgangsraða því að setja þak yfir höfuð þessa fólks og það eru ekki allir sem kjósa að snúa aftur jafnvel þó að það verði mögulegt. Grindvíkingar finna huggun hjá hver öðrum og samfélagið sýnir mikla samstöðu. Þessi erfiða reynsla mun þó hvíla á fólki lengi og það er mikilvægt að hlúð sé að andlegu hliðinni því annars situr reiðin og sorgin yfir örlögunum eftir. Í fyrra talaði ég um að við værum illa undirbúin fyrir hamfarir eins og þessar að mörgu leyti af því að við horfum á náttúruna en tengjumst henni illa. Lítið er hugsað til lengri tíma og þeirrar staðreyndar að náttúran er síbreytileg og óútreiknanleg á svo margan hátt. Það sýndi sig á þessu ári en þessu verður betur farið árið 2024. Farið verður í það að bæta verkferla og horfa fram í tímann hvað þetta varðar,“ segir völvan og verður hugsi um stund. „Ég sé að það verða tvö gos á árinu. Þau valda ekki miklum usla nálægt byggð og munu ekki hafa áhrif á flugsamgöngur en þau verða tignarleg á að líta. Gosin munu standa yfir mestallt árið og trekkja að ferðamenn og aðra. Katla mun einnig taka við sér á árinu en að öllum líkindum mun hún þó ekki ná að gjósa fyrr en á árinu 2025. Það eru einnig jarðhræringar í Heklu og hún er að búa sig undir gos.“
Margir glíma við djöful fíknarinnar og verður sett aukin áhersla á að finna lausnir á þeim vanda. „Ópíóðafaraldurinn mun ekki minnka að neinu ráði á árinu en farið verður í átak gegn honum og fíknimálin verða ofarlega á baugi næsta ár. Ríkisstjórnin mun auka framlög sín í þetta verkefni. Ráðist verður í uppbyggingu stofnunar til afeitrunar. Þetta verður ekki mjög stórt hús og ekki beint tengt spítalanum. Í þessu húsi verður tekið á fíknivandanum. Mér finnst þetta brýn nauðsyn. Ef við skiljum fólk eftir úti verður vandinn enn meiri og alvarlegri. Ríkisstjórnin mun setja aukið fjármagn til að hjálpa fólki sem glímir við fíknivanda en það vill enginn sjá heimilislausa sjúklinga þjást. Heilbrigðisráðherra tekur við keflinu og fer að sinna þessum málum af alvöru á árinu með aukinni fjárveitingu. Árið 2024 er allt í áttina, meira svigrúm og fjármagn og meira tekið á hlutunum,“ segir völvan. …
Þetta og margt margt fleira áhugavert er hægt að lesa um í nýjasta völvublaði Vikunnar sem kom út 28. desember 2023. Hægt er að nálgast völvublaðið á netinu hjá Birtíngi www.birtingur.is eða í út í helstu bókabúðum og verslunum.