Þrír aðilar voru handteknir í gærkvöldi grunaðir um að hafa rænt annan mann og gengið í skrokk á honum til að komast yfir verðmæti hans. Lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu tókst að hafa hendur í hári ræningjanna og gista þeir nú fangaklefa. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en verkefni embættisins frá 17:00 til 05:00 voru jafn misjöfn og þau voru mörg.
Tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í hverfi 104 og sást aðili hlaupa frá vettvangi. Lögreglumenn handtóku mann skammt frá, en hann reyndist vera með sjóðsvél úr fyrirtækinu. Þá var aðilinn einnig með hnífa í fórum sínum. Aðilinn var vistaður í fangaklefa í kjölfarið.
Þá kom tilkynning til lögreglu um ósætti leigubílstjóra og farþega vegna fargjalds. Farþeginn átti að hafa veist að leigubílstjóranum og gerði svo heiðarlega tilraun til þess að hlaupa undan lögreglu, en hafði ekki erindi sem erfiði. Farþeginn gistir nú í fangaklefa.
Umferðaróhapp varð á Heiðmerkurvegi þar sem að bifreið rann á dráttarbifreið sem að þar var við störf. Fljúgandi hálka var á vettvangi sem að átti stóran þátt í óhappinu.