Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar þjófnað úr félagsmiðstöð grunnskóla í umdæminu. Upp komst um þjófnaðinn í gær en lögreglan fékk tilkynningu um að leikjatölvu barnanna hefði verið stolið. Sá þjófur má skammast sín að mati Nútímans og skila henni strax enda fátt jafn aumingjalegt og að eyðileggja tómstundastarf barna með huglausum þjófnaði.
Fyrir utan það má segja að lögreglan hafi haft í nægu að snúast þegar það kemur að akstri undir áhrifum ýmist áfengis eða vímuefna. Lögreglumenn í Kópavogi og Breiðholti fengu tilkynningu um ölvunarakstur ökumanns.
Stuttu síðar kom annað frekar óvænt símtal en það var frá þessum sama ökumanni og hafði verið tilkynntur. Hann var þá að tilkynna sjálfan sig. Þegar lögregla kom á vettvang sagði ökumaðurinn að hann hafi áttað sig á því að hann gæti ekki haldið akstri áfram sökum ölvunarástands og hann vildi ekki stofna öðrum í hættu. Ökumaðurinn var handtekinn en laus að blóðsýnatöku lokinni.
Þá var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir þar sem maður var að bera mikið af munum um miðja nótt. Lögregla fann manninn þar sem lögreglu grunaði að hann væri með meint þýfi frá nærliggjandi fyrirtækjum. Málið í rannsókn.