Það er ekki mikið um ljósa punkta í dagbók lögreglunnar sem heldur utan um verkefni hennar frá því klukkan 17:00 í gær til 05:00 í morgun. Tilkynnt var um hnífstungu í vesturbæ Reykjavíkur en þolandi var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku. Einn var handtekinn skammt frá vettvangi grunaður um verknaðinn og er hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Karlmaður sem var stunginn er á þrítugsaldri og er mjög alvarlega særður. Karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn grunaður um árásina. Tildrög árásarinnar eru óljós. Þetta kemur fram á Vísi.
„Það virðist vera, miðað við fyrstu upplýsingar, að þarna hafi aðili verið á gangi úti á götu og vegfarendur ætla að benda honum á að vera ekki á miðri akbraut. Við það hafi komið til átaka og þolandi fengið stungu,“ segir Elín. Maðurinn hafi verið stunginn í búkinn.
Þetta segir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild, í samtali við fréttastofu Vísis. Hún segir tildrög árásinnar enn óljós en ljóst sé þó að hún tengist ekki deilum milli skipulagðra hópa.
Maðurinn sem varð fyrir árásinni er ekki talinn tengjast árásarmanninum. Elín segir hann hafa verið fluttan með lífsháttulega áverka á bráðamóttöku í nótt. Ástand hans sé þó orðið stöðugt. Einn varð vitni að árásinni.
Tveir með vesen á skemmtistöðum
Þá voru höfð afsipti af einstakling í hverfi 108 en hann er grunaður um vörslu og sölu fíkniefna. Sá var handtekinn og er nú vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Í tvígang var óskað eftir aðstoð lögreglu á skemmtistöðum í miðbænum. Í bæði skiptin vegna einstaklinga sem voru til vandræða. Þá var einn ölvaður í verslun í miðbænum og neitaði að yfirgefa verslunina. Var hann fjarlægður úr versluninni af lögreglu.
Óskað eftir aðstoð lögreglu í unglingasamkvæmi í hverfi 110. Einn einstaklingur handtekinn á vettvangi en hann skemmdi lögreglubifreið. Málið unnið með barnavernd og forráðamönnum sökum aldurs handtekna.
Tilkynnt um flugeldaslys í hverfi 210. Einn einstaklingur með áverka í andliti eftir slysið en ekki vitað um alvarleika áverka.