Tilkynnt var um rán á Völlunum í Hafnarfirði en þar hafði verið ráðist á ungan einstakling og af honum tekinn fatnaður og verðmæti. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar sem nær yfir verkefni frá því klukkan 17:00 í gær og þar til 05:00 í nótt. Ekki er vitað hvort lögreglan hafi haft hendur í hári þeirra sem þar stóðu að verki.
Eitthvað var um umferðaróhöpp. Eitt slíkt átti sér stað í hverfi 105 í Reykjavík en við óhappið valt önnur bifreiðin. Ökumenn og farþegi voru fluttir á bráðamóttöku til skoðunar en ekki er vitað um alvarleika áverka. Bifreiðarnar voru báðar óökufærar og dregnar með dráttarbifreið. Þá var einni bifreið ekið út af veginum í Garðabæ en samkvæmt dagbókinni var ökumaður og farþegi óslasaðir og bifreiðin lítið tjónuð eftir óhappið. „Fólkið hélt áfram á leið sinni eftir viðræður við lögreglu,“ segir í dagbókinni.
Höfð voru afskipti af tveimur einstaklingum sem eru grunaðir um vörslu fíkniefna. Tvær tilkynningar bárust lögreglu vegna hóp unglinga sem voru að brjóta rúður í biðskýli Strætó. Þá voru tvær tilkynningar vegna slagsmála skráðar í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu – ein í miðbænum og önnur í hverfi 103.