Auglýsing

Sýndarveruleikagleraugun frá Playstation: „Þetta hef ég aldrei upplifað áður“

Sýndarveruleiki tröllríður nú öllu úti um allan heim en fjölmörg fyrirtæki keppast nú við að búa til flottasta búnaðinn – bæði til afþreyingar og atvinnu. Umrædd tæki hafa kannski ekki verið á færi allra þar sem þau hafa verið mjög dýr í verði – að minnsta kosti þessi sem búa yfir mikilli tækni og ótrúlegum gæðum. En á síðustu mánuðum hafa komið út sýndarveruleikagleraugu sem eru auðveld í uppsetningu, búa til ótrúlegan sýndarveruleikaheim og fást hér á landi á verði sem hefur ekki þekkst áður.

Ein af þessum gleraugum eru frá leikjatölvuframleiðandanum Playstation en um er að ræða VR2-gleraugun sem þú verður að nota með Playstation 5. Nútíminn hefur nú prófað VR2 og niðurstaðan er sú að þessi sýndarveruleikagleraugu eru hverrar krónu virði.

Hvað fylgir pakkanum?

Byrjum á byrjuninni – í kassanum færðu PS VR2 HMD (sýndarveruleikagleraugu), tvo „sense“ stýripinna sem fara á sitthvora hendina, eitt par af steríó heyrnartólum sem hægt er að tengja við gleraugun, nokkrar leiðbeiningar og eitt par af hleðslusnúrum. Að setja upp PS VR2 er einfalt – þú tengir heyrnatólin við PS5 tölvuna með einni USB-C snúru og kveikir á sense stýripinnunum. Þá er það komið! Þú hefur núna stigið inn í sýndarveruleikann!

Hvernig er uppsetningin?

En auðvitað áður en þú getur raunverulega ræst leik, verður þú að láta kerfið vita hvort þú ert að spila standandi eða sitjandi, ásamt því að setja upp mörk í herberginu þínu eða stofunni til að búa til „sýndarleiksvæði.“ Að setja upp PS VR2 er mjög einfalt, þú setur bara á þig gleraugun og fylgir leiðbeiningum á skjánum. Þau skanna nærumhverfi þitt til að búa til sýndarmörkin, og BÚMM þú ert í öðrum heimi!

 

Ég verð að taka það fram að upplifun mín var að hluta til skert því ég var að spila í minni herbergi en gert er ráð fyrir með þessi tækni. Þó ber að halda til haga að PS VR2 getur aðlagast smærri „sýndarmörkum“ frekar vel. Á hvaða tímapunkti sem er gat ég endurstillt skjáinn til að benda fram á við og innbyggðir skynjarar sem láta mig vita þegar ég nálgast mörk þess svæðið sem ég hef stillt inn virka mjög vel. Þá eru einnig mjög nákvæmar stillingar fyrir sjónsvið og eitthvað sem heitir IPD eða „inter-pupillary distance“ – sem ég kann því miður ekki að þýða yfir á íslensku. Til þess að reyna að útskýra þessa tækni á mannamáli þá eru skynjarar inni í gleraugunum sem skynja augnhreyfingu þína og hjálpa þér að bæði fókusera myndina og stilla myndgæði sem henta þinni sjón.

„Um leið og leikurinn byrjar þá ertu komin inn í allt annan heim og það er alveg súrrealískt og í raun erfitt að útskýra hvernig tilfinningin er.“

Til að gera hlutina auðvelda þá þurfa spilarar að fara í gegnum sjóngreiningu sem greinir þessa hreyfingu augna. Þessi eiginleiki er mjög gagnlegur þar sem nokkrir leikir styðjast við umræddar hreyfinga. Augnmælingin hjálpar líka spilurum að vafra um valmyndir í leikjum með því einu að færa augað þangað sem þeir vilja fara. Þegar allt þetta hefur verið greint og skráð eru leikmenn tilbúnir til að hefja ferð sína inn í heim sýndarveruleika. Þá er það næsta spurning. Hvaða leiki getur maður spilað á PS VR2?

Hvaða leikir eru í boði?

Þegar gleraugun komu fyrst út í febrúar í fyrra þá var ekki mikið um fína drætti þegar það kom að tölvuleikjum en síðan þá hafa nokkrir komið út sem eru vel þess virði að prufa. Leikir á borð við Resident Evil Village, Resident Evil 4, Among US VR, Gran Turismo 7 og Horizon Call of the Mountain. Þá munu fleiri spennandi titlar koma út á þessu ári.

Fyrir þessa umfjöllun spiluðum við Horizon Call of the Mountain á PS VR2. Hægt er að kaupa sérstakan pakka sem inniheldur tölvuleikinn og sýndarveruleikagleraugun þessa dagana og fæst hann meðal annars í ELKO á 114.995 kr.- þegar þetta er skrifað.

Við munum líka birta umfjöllun um leikinn á næstu dögum. Nú skulum við hins vegar demba okkur út í það hvernig er að spila tölvuleik sem er sérstaklega hannaður fyrir VR2.

Upplifunin

Um leið og leikurinn byrjar þá áttar maður sig á því að þetta tæki er ekkert grín. Ef þú hélst að þetta yrði eins og að kaupa plastgleraugu af AliExpress sem þú treður símanum þínum inn í að þá verður þú fyrir miklum vonbrigðum! Það verður þó að viðurkennast að mér fannst fyrstu sýndarveruleikagleraugun frá Playstation ekkert spes og því hafði ég svo sem ekki miklar væntingar þegar ég prufaði VR2. En guð minn almáttugur.

„Þegar spilarar eru orðnir vanir tækinu og sýndaveruleikanum að þá verður erfitt að komast út úr þessum nýja heim sem Playstation hefur skapað.“

Um leið og leikurinn byrjar þá er maður kominn inn í allt annan heim og það er alveg súrrealískt og í raun erfitt að útskýra hvernig tilfinningin er. Hún er allavega „mind blowing“ þannig að við slettum aðeins á ensku. 110 gráðu sjónsviðið og gæðin í gleraugunum fá mann til þess að líða eins og maður hafi yfirgefið lífið á þessari jörðu…

Til þess að gera langa sögu stutta þá býður Sony PS VR2 upp á eina bestu sýndarveruleikaupplifun sem við höfum nokkurn tímann prófað. Sense-stýripinnarnir sem fylgja með spila þar stórt hlutverk því eins og í Horizon-leiknum þá spila þeir stórt hlutverk þegar sækja á boga og örvar úr bakpokanum þínum. Með því að líkja eftir þeirri hreyfingu þá dreguru bogann af bakinu og örvarnar úr bakpokanum – upplifunin er svo raunveruleg að hún er nánast óraunveruleg.

PS VR2 heyrnartólin og Sense-stýripinnarnir eru líka í léttari kantinum hvað varðar þyngd. Þetta hjálpar spilurum að ná lengri leikjalotum en flest önnur fyrirferðarmikil sýndarveruleikagleraugu á markaðnum í dag.

Það sem ber að varast

Ef þú ert að prófa sýndarveruleika í fyrsta skiptið að þá gæti það tekið smá tíma að venjast þessu. Einn sem fékk að prófa græjuna hjá okkur fann til að mynda fyrir svima og þurfti næstum því að æla – en engar áhyggjur. Þegar spilarar eru orðnir vanir tækinu og sýndaveruleikanum að þá verður erfitt að komast út úr þessum nýja heim sem Playstation hefur skapað. Um leið og þessi umræddi spilari sem þurfti að æla hafði jafnað sig að þá vildi hann strax prufa aftur. „Þetta hef ég aldrei upplifað áður,“ sagði viðkomandi og við hjá Nútímanum tökum undir það. Þetta er ólýsanleg upplifun.

Er hægt að nota VR2 með venjulegum leikjum?

Þó að PS VR2 sé hannað fyrir VR leiki þýðir það ekki að spilarar séu takmarkaðir við að spila aðeins þá tegund leikja. Nei. Þú getur nefnilega spilað venjulegu PlayStation-leikina þína með PS VR2-gleraugunum.

Þetta er í raun annar skjár fyrir PlayStation 5 sem er staðsettur beint fyrir framan þig. Þú getur legið upp í rúmi og gleraugun varpa risastórum stórum skjá í hárri upplausn beint fyrir framan þig. Þú bara slekkur á Sense-stýripinnunum og tekur upp hinn hefðbundna Playstation-stýripinna og þú ert ready. Við prófuðum að spila Call of Duty: Modern Warfare 3 með VR2 og það var ótrúlega skemmtilegt. Þetta var eins og að spila tölvuleik í lúxussalnum í Smárabíói – risastór skjár sem bæði er hægt að stækka og minnka með stillingum í PS5-tölvunni.

Hér fyrir neðan má sjá þá félaga Ólaf Þór Jóelsson úr GameTíví og Pétur Jóhann Sigfússon prófa leikinn Gran Turismo 7 í VR2.

Þá er líka hægt að horfa á Netflix, YouTube og fleiri forrit sem þú finnur í PS5-tölvunni þinni með VR2.

Niðurstaðan

PlayStation VR2 frá Sony er hrikalega skemmtileg viðbót við Playstation 5. Nútímanum líður eins og möguleikarnir séu endalausir þegar það kemur að þessum nýju sýndaveruleikagleraugum. Boltinn liggur hins vegar núna hjá þeim sem framleiða tölvuleiki – þeir verða að nýta sér þessa gagnvirku, háskerpu og súrrealísku upplifun sem VR2 býður upp á. VR2 eru sýndarveruleikagleraugu í hæsta gæðaflokki og stendur mörgum ljósárum framar en forveri sinn sem var ekki upp á marga fiska.

Ef þú elskar að prófa nýja tækni, ef þú vilt upplifa sýndarveruleika heima í stofu þá er PS VR2 fyrir þig. Þetta tæki er nákvæmlega það sem þurfti til þess að koma leikjaspilun í sýndarveruleika á kortið. Engum blöðum um það að fletta.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing