Auglýsing

Snorri um leikskólamálin: „Ótrúlegt að menn komist upp með að svíkja og ljúga”

„Leikskólamálin sem eru í miklum ólestri á Íslandi, og það er vægt til orða tekið, þetta er gífurlegur þjóðarskandall. Það sem stöndug einkafyrirtæki gera ef þau vilja koma einhverju til leiða þá bara gera þau það,“ segir Snorri Másson fjölmiðlamaður en hann hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir miðilinn sinn Ritstjóri.is.

Snorri er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni. Hann stofnaði Ritstjóri.is eftir að hafa sagt starfi sínu lausu á Stöð 2 þar sem hann upplifði innri togstreitu á milli væntinga yfirmanna sinna og eigin sannfæringa. Snorri ræðir hér um áherslur sínar og skoðanir sem hann viðurkennir að hafi orðið íhaldsamari með árunum þó hann hafi sennilega alltaf verið gömul sál. Rætt er um stöðu íslenskunnar, menntamál, leikskólamál, bókmenntir, femínisma og margt margt fleira í þessu mjög svo áhugaverða viðtali.

„Maður getur ekki sagt við þetta fólk „Viltu ekki bara eyða tíma með barninu þínu“ – auðvitað myndi þetta fólk vilja það en það þarf að vinna af sér rassgatið.“

„Ef viljinn er fyrir hendi þá geturu gert hluti. Það er ákveðin kenning í kerfisfræði og hún er að hlutverk kerfa er afrakstur þeirra. Þú segir að leikskólakerfi eigi að brúa bilið…nei nei nei. Hlutverk leikskólakerfisins er að halda foreldrunum í þessari hræðilegu stöðu. Jújú, leikskólakerfið er frábært þegar það byrjar en ekki tala um hugsjónir kerfisins við mig þegar ég sé virknina, þegar ég sé áhrifin og ég sé árangurinn. Einar var að taka við sem borgarstjóri núna og hann var að tala um að það væru 400 pláss laus einhvers staðar eða væru að losna og þetta er alltaf fram og tilbaka einhver söngur,“ segir Snorri og bætir við að það sé bara ekki raunsætt að ætlast til þess að fólk sé heima með börnum sínum til tveggja ára aldurs í nútímasamfélagi.

Fólk þarf að vinna af sér rassgatið

„Auðvitað talar maður fyrir því að fólk eyði tíma með börnunum sínum fram að sérstaklega tveggja ára aldri og ef þú ferð í einhver rosaleg tengslafræði að þá er bara betra að barnið sé heima til tveggja ára. Það er bara hins vegar ekki raunsætt hjá 95% af fólki. Það er með vexti sem gætu hækkað á þessu ári og jafnvel báðir foreldrar að þræla sig út og svo er fólk bara með venjulegar tekjur. Hjúkrunarfræðingar, kennarar og venjulegt fólk er bara í ógeðslega flókinni stöðu. Maður getur ekki sagt við þetta fólk „Viltu ekki bara eyða tíma með barninu þínu“ – auðvitað myndi þetta fólk vilja það en það þarf að vinna af sér rassgatið. Jafnvel í tveimur vinnum bæði svo það missi ekki húsnæðið sitt og svo bregst hið opinbera alveg.“

Snorri bendir á að á sama tíma og þetta er að gerast að þá sé fæðingartíðni á Íslandi í frjálsu falli.

„Afhverju eru engar verulega viðvörunarbjöllur í gangi hjá stjórnvöldum og ríkisstjórn þegar þessi tölfræði kemur út ár eftir ár? Fólk er orðið samdauna þessu. Það er döpur heimsýn að fólk hætti að eignast börn. Hver er þá tilgangurinn með þessu öllu. Hverjir eru að bjóða fram einhverja aðra möguleika í þessu?“

Komst upp með svik og lygar

Þá benda bæði Frosti og Snorri á þá staðreynd að Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri Reykjavíkur, hafi lofað leikskólaplássi fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri í tveimur kosningabaráttum í röð og ekkert hafi gerst.

„Ótrúlegt að menn komist upp með að svíkja og ljúga,“ segir Snorri sem hefur takmarkaða trú á að eitthvað breytist með nýjum borgarstjóra.

Hægt er að hlusta á brot úr viðtalinu hér fyrir neðan en allt viðtalið má nálgast á vefsíðu hlaðvarpsveitunnar Brotkast.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing