Auglýsing

Kvikusöfnun heldur áfram undir svæðinu við Svartsengi

Landris heldur áfram vegna kvikusöfnunar undir svæðinu við Svartsengi. Síðustu daga hefur land risið um allt að 8 mm á dag sem er örlítið hraðara landris en mældist fyrir gosið 14. janúar.
Á þessum tímapunkti er erfitt að fullyrða um hversu mikið magn kviku hefur safnast fyrir frá því að gosi lauk 16. janúar. Líklegt er að sá tími sem það tekur að ná sama kvikumagni og fyrir síðasta gos sé mældur í vikum frekar en dögum. Verið er að vinna reiknilíkön til að fá skýrari mynd af stöðu kvikusöfnunar.

Skjálftavirknin á svæðinu er áfram væg og er mestmegnis í kringum Hagafell. Það má segja að skjálftavirknin sem mælist nú sé í takti við þá virkni sem sést hefur á svæðinu í kjölfar eldgosa.

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat. Helstu breytingar eru þær að heildarhættumat fyrir Grindavík hefur verið fært niður í appelsínugult (töluverð hætta).

(Smelltu á kortið til að sjá það stærra). Heildarhættumat fyrir hvert svæði er byggt á samanlögðu mati á 7 tegundum af hættu sem er til staðar eða gæti skapast innan svæðanna. Litur svæða endurspeglar þannig heildarhættu innan svæðanna. Í listanum á kortinu sem sýnir hættur innan svæða, er eingöngu talin upp hætta sem metin er „töluverð“, „mikil“ eða „mjög mikil“ innan hvers svæðis. Sú hætta sem metin er „mikil“ eða „mjög mikil“ er feitletruð.

Það skal tekið fram að þó svo að heildarhættumat fyrir Grindavík hafi verið fært niður um eitt stig, er hætta í tengslum við sprungur áfram metin mjög mikil. Það er hættan sem nú er kölluð „jarðfall ofan í sprungu“ og lýsir hættu sem gæti verið til staðar þar sem sprungur leynast undir ótraustu yfirborði sem gæti gefið sig.

Hættumat í tengslum við „sprunguhreyfingar“ innan Grindavíkur hefur hinsvegar verið lækkað. Þar er verið að meta hvort hætta sé til staðar að sprungur sem þegar hafi myndast stækki eða að nýjar sprungur myndist. GPS gögn sýna að mjög lítil hreyfing hefur mælst innan Grindavíkur síðustu daga og því er sú hætta metin minni en áður. Hætta vegna sprunguhreyfinga er nú metin töluverð.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing