Íslenskur karlmaður á sjötugsaldri hefur verið handtekinn á Tenerife grunaður um að hafa logið til um líkamsárás á næturklúbbi á eyjunni. Lagði hann fram kæru til lögreglunnar og sagði að af honum hefðu verið stolnar átta þúsund evrur í kjölfar líkamsárásarinnar sem hefðu verið teknar út af greiðslukorti hans. Íslendingurinn tjáði lögreglu að greiðslukortinu hefði verið stolið í árásinni.
Lögreglan á eyjunni rannsakaði málið og í ljós kom að enginn árás hafi átt sér stað heldur hafi maðurinn eytt umræddum peningum á næturklúbbnum – keypt þar ótilgreinda þjónustu og að auki verið mjög gjafmildur við aðra gesti staðarins.
Vísir greinir frá þessu og vitnar í staðarblaðið Canarian Weekly. Fram kemur að lögreglan hafi rætt við starfsfólk staðarins og önnur vitni sem þar voru þegar úttektirnar voru gerðar.
Eftir frekari rannsókn fór lögregla á hótelið þar sem maðurinn dvaldi og handtók hann fyrir að ljúga til um árásina og segjast vera fórnarlamb saknæmar háttsemi.
Fram kemur í frétt Canarian Weekly og Vísir greinir frá að maðurinn gæti átt yfir höfði sér sex til tólf mánaða fangelsisdóm, og þá mætti einnig búast við sektum vegna meintrar háttsemi sinnar.