Þeir eru eflaust fáir sem elska skotleiki og eiga ekki Call of Duty: Modern Warfare 3 sem kom út í nóvember á síðasta ári. Sá leikur er í rauninni skyldueign fyrir alla þá sem elska „fyrstu persónu“ skotleiki en Warzone-útgáfan af leiknum er eflaust vinsælasti leikjahamurinn (e. game mode) af þeim öllum. Þessi tölvuleikjagagnrýni átti að vera um allt það sem MW3 býður upp á en eftir að hafa prufað Zombies-útgáfuna sem fylgir með leiknum að þá ákvað ég að fjalla bara um það enda er það einn skemmtilegasti leikjahamur sem ég hef prófað í nokkur ár…
Leikmenn eru í Urzikstan-kortinu sem er opið kort og hægt er að ferðast hvert sem er.
Fyrir ykkur sem hafa leikið ykkur í eldri Zombies-útgáfum Call of Duty að þá munið þið eftir því að það þarf að safna pening, loka fyrir glugga og opna nýjar leiðir í kortinu (e. map) til þess að halda lífi. Það þurfti líka ágætis þolinmæði til þess að verða betri í leiknum og eflaust einhverjir sem fenu fljótt leið á þeim leikjaham. En bíddu bara. Nýjasta Zombies-útgáfan hefur fengið „Warzone“ yfirhalningu.
Victor Zakhaev snýr aftur
Operation Deadbolt er Zombies-útgáfan sem fylgir nýjasta COD MW3 og til að gera langa sögu stutta að þá er þetta, að mínu mati, einn skemmtilegasti leikjahamur sem nokkurn tímann hefur fylgt þessum goðsagnakenndu tölvuleikjum frá Activision.
Zombies-hamurinn gerist mörgum árum eftir atburði Black Ops: Cold War. Victor Zakhaev, sem talið var að hefði látið lífið í sögu Warzone, hefur snúið aftur og gengið til liðs við málaliðahópinn Terminus Outcomes til að nota það sem kallast „Aetherium“ gegn heiminum. Leikmenn ganga til liðs við Operation Deadbolt og verða að vinna að því að koma í veg fyrir að áætlanir þeirra gangi eftir. Sagan er þannig sett upp að hún ætti að vera skemmtileg fyrir bæði þá sem hafa spilað leikinn mikið áður og einnig nýliða.
Opið kort með endalausa möguleika
Leikmenn eru í Urzikstan-kortinu sem er opið kort og hægt er að ferðast hvert sem er. Þó ber að hafa eitt í huga: kortinu er skipt upp í ákveðin erfiðleikastig og þau eru þrjú. Kortinu er skipt upp með litum og er ólitaða svæðið það auðveldasta þegar það kemur að Zombies og svo er appelsínugult það næsterfiðasta og svo það rauða sem er það erfiðasta.
24 leikmenn (eða 23 plús þú) taka þátt í hverjum leik sem getur verið allt að 60 mínútur – það fer allt eftir því hvernig þú kýst að spila leikinn. Í þessum leikjaham þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af þessum 23 leikmönnum sem spila með þér – þú getur annaðhvort ákveðið að vera með eitthvað af þeim í liði (allt upp í sex leikmenn í hverju liði) eða bara spilað einn. Þeir geta ekki drepið þig og þú getur ekki drepið þá.
Ef þig vantar aðstoð eða einhvern til að spila með þá skaltu bara bæta mér við á vinalistann þinn – DJFortIce.
Til þess að útskýra þetta betur að þá verður þessi tölvuleikjagagnrýni skrifuð með ensku-slettum hér og þar en þeir sem þekkja skotleiki ættu að kannast við orðin sem notuð eru.
„Story missions“ sem auðvelda þér spilun
Áður en þú byrjar í leiknum að þá þarftu að velja þér leikmann og síðan velja þér byssur. Til að byrja með ertu aðeins með eitt slot sem er „insured“ sem þýðir að þótt þú látir lífið í leiknum þá missir þú ekki þessa byssu. Allt annað kemur þú til með að missa ef þú deyrð. Þá geturu líka valið á milli þess að droppa einn inn í mappið eða fylla liðið þitt með tveimur öðrum spilurum sem serverinn velur fyrir þig. Þá eru þessi týpísku „Daily challenges“ til staðar sem gerir þér kleyft að vinna þér inn XP-stig sem hraðar því að þú aflæsir hinar og þessar byssur og fylgihluti. Mikilvægustu verkefnin eru þó þessi sem þú finnur í „Story missions“ en það eru þau verkefni sem skipta mestu máli ef þú vilt til dæmis aflæsa fleiri slottum og vinna þér inn hluti sem gera þér auðveldara að drepa sem flesta Zombies.
Þessum söguverkefnum er skipt upp í fjóra hluta sem allir kallast „ACT“-eitthvað. Þú byrjar í „ACT I“ og fyrsta verkefnið þitt er að „pinga“ contract (e. verkefni) á mappinu, klára einn slíkan og svo „Exfil“-a með þyrlu. Þær eru allar merktar á mappinu. Til þess að „Exfil“-a og koma þér úr mappinu þá þarftu að fara á þennan stað – ýta á kassann þar sem græni reykurinn er og þá kemur þyrlan sem þú þarft að fara inn í og hún flýgur með þig burt. Þú skalt hafa það á bakvið eyrað að um leið og þú kallar á þyrluna þá á heill hellingur af Zombie-s eftir að mæta á svæðið og þú þarft að passa þig að halda lífi…
Mikilvægt að uppfæra vopnið þitt með Pack-A-Punch…
Fyrir öll þessi verkefni þá færðu verðlaun sem eru ýmist í formi XP-stiga eða jafnvel uppskrifta af aukahlutum sem gera þér kleyft að búa til ýmislegt sem þú getur tekið með þér í bakpokann í næsta drop. Allir leikmenn byrja með minnsta bakpokann og vesti sem tekur aðeins einn skjöld. Eftir því fleiri verkefni sem þú gerir og eftir því sem þú opnar og „lootar“ fleiri kassa í mappinu þá er meiri möguleiki á því að þú finnur þriggja punkta vesti og stærri bakpoka. Til eru þrjú mismunandi vesti í leiknum og þrír mismunandi bakpokar. Í næsta verkefni áttu að „loota“ tuttugu og fimm kassa…svo bara koll af kolli. Verkefnin verða erfiðari eftir því sem þú spilar leikinn en verðlaunin á sama tíma betri og betri. Þessi verkefni er bæði skemmtilegt að gera einn eða með liði en eftir því sem líður á leikinn þá verður stundum nauðsynlegt að klára þau með einhverjum þar sem þau verða stundum mjööög erfið.
Klassíska Pack-a-Punch-vélin gerir þér kleift að uppfæra vopnið þitt þrisvar sinnum. Taktu samt eftir að þú getur aðeins uppfært vopnið einu sinni á hverju svæði.
Eftir því sem þú klárar fleiri verkefni þá safnar þú „essence“ í leiknum sem er hálfgerður gjaldmiðill. Allt „essence“ verður þú að nýta áður en þú flýgur í burtu með þyrlunni því þú færð ekki að byrja með það í þeim næsta. Þetta „essence“ er mikilvægt að nota til þess að „Pack-A-Puncha“ vopnið þitt en með því gerir þú það töluvert öflugra og meira í stakk búið til þess að takast á við Zombies á appelsínugula og rauða svæðinu. Venjuleg byssa sem ekki hefur verið uppfærð dugar skammt gegn Zombies á hinum svæðununum. Þú getur séð hvar „Pack-A-Punch“-stöðin er með því að skoða mappið.
Klassíska Pack-a-Punch-vélin gerir þér kleift að uppfæra vopnið þitt þrisvar sinnum. Taktu samt eftir að þú getur aðeins uppfært vopnið einu sinni á hverju svæði. Það þýðir að þú getur ekki „Pack-A-Punchað“ vopnið þitt tvisvar sinnum á auðveldasta svæðinu. Þú þarft að fara á appelsínugula svæðið til þess að uppfæra vopnið þitt á næsta stig.
Það þyrfti heila doktorsritgerð ef það ætti að skrifa um hvern einasta anga Zombies-útgáfunnar og því mæli ég bara með því að þú prófir að skella þér í mappið og kíkja á allt það sem leikurinn hefur upp á að bjóða. Ef þú lendir einhvern tímann í vandræðum að þá geturu bæði sent mér vinabeiðni eða gert það sama og ég gerði sem er að YouTube-a það sem þú átt í vandræðum með. Fyrir mig hefur YouTube algjörlega bjargað mér því áhuginn á leiknum er gríðarlega mikill og vinsældir hans aukast með degi hverjum sem þýðir að fleiri og fleiri hafa búið til alls kyns útskýringarmyndbönd og póstað á YouTube fyrir okkur hina.
Zombies-útgáfan ein sú skemmtilegasta sem hefur komið út
En til þess að draga þetta allt saman þá er Zombies-útgáfan af leiknum, sem er aðeins spilanleg ef þú átt MW3, ein sú skemmtilegasta sem ég hef spilað í mörg ár. Að sjálfsögðu býður MW3 upp á alls kyns möguleika eins og Warzone og þessa hefðbundnu spilun í litlum möppum þar sem til dæmis sex eru á móti sex og svo framvegis. Zombies er hinsvegar, fyrir mig að minnsta kosti, kirsuberið eða rúsínan í pylsuendanum. Bara Zombies-útgáfan er nóg til þess að réttlæta þennan pening sem fer í að kaupa leikinn.
Call of Duty: Modern Warfare III Zombies fær 5 af þeim 5 stjörnum sem í boði eru og ég get ekki beðið eftir nýrri uppfærslu með vonandi nýju mappi og fleiri verkefnum. Ég átti erfitt og á erfitt með að hætta að spila þennan leik. Er búinn með öll verkefnin og eyði tíma mínum núna í að hjálpa öðrum að klára þau verkefni sem þeir eiga eftir.
Ef þig vantar aðstoð eða einhvern til að spila með þá skaltu bara bæta mér við á vinalistann þinn. Nafnið er DJFortIce. Hér fyrir neðan má svo sjá nokkur myndskeið úr leiknum sem aðrir spilarar hafa búið til og hjálpa okkur hinum sem eru að prufa Zombies-útgáfuna í fyrsta skiptið. Þá fylgir einnig hlekkur á kort af Urzikstan sem auðveldar þér að finna hitt og þetta…
Hægt er að kaupa leikinn í ELKO fyrir bæði PS4 og PS5 en netspilun krefst Playstation Plus áskriftar.
Leiðbeiningar fyrir þá sem hafa ekki prufað Zombies – hér er farið yfir allt frá A til Ö!
Ef þú smellir á þennan hlekk þá færðu upp „Tactical map“ af Urzikstan sem auðveldar þér að finna hitt og þetta. Þetta hjálpaði mér gríðarlega mikið við Zombies-spilunina.
Hér er annað YouTube-myndband sem útskýrir Zombies frá A til Ö.