„Ég ætla að leyfa mér að hafa áhyggjur af því ef stjórnmálamenn telja að þeir geti gengið um lög til þess að ná fram sínum pólitíska vilja – gengið þannig um lög að lögin verða í raun óþörf,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi en hún er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni.
Heiðrún ræðir í þessu viðtali um óljósa framtíð sjávarútvagsfyrirtækja í Grindavík, kvótakerfið og hina margumtöluðu sátt um sjávarútveginn. Heiðrún segist vona að íslenska ríkið muni sýna iðrun í hvalveiðibannsmálinu og hafi frumkvæði að því að greiða skaðabætur vegna þeirra brota sem matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir framkvæmdi á stjórnarskrárvörðum réttindum Hvals hf. síðastliðið sumar.
„Það er búið að viðurkenna að lög voru brotin – umboðsmaður Alþingis staðfesti það“
„Við erum með tilteknar leikreglur sem gilda sem að Alþingi hefur sett, löggjafavaldið, og framkvæmdavaldið, í þessu tilfelli ráðherrar, geti ekki bara gengið gegn því sem löggjafavaldið hefur sagt að séu reglur. Mér finnst að það megi aldrei vera þannig að það eigi ekki að fela í sér neina eftirmála eða ábyrgð vegna þess um leið og það gerist að þá mun næsti ráðherra fylgja á eftir í öðrum atvinnugreinum eða í hverju sem það kann að vera. Við höfum lent í þessu áður þegar Jón Bjarnason setti reglugerð um makrílveiðar sem að Hæstiréttur úrskurðaði um að hefði verið ólögleg og ríkið bótaskylt af þeim sökum,“ segir Heiðrún Lind og tekur fram að Jón Bjarnason hefði enga ábyrgð borið á því þegar uppi var staðið.
„Flest fyrirtæki létu af þeirri skaðabótakröfu og mér fannst það líka mjög sérkennilegt að sjá þá fjármálaráðherra og fleiri þingmenn stíga fram og segja að ef að sjávarútvegur vogar sér að innheimta í raun réttmætar bætur sínar að þau munu þau hafa verra að – og það verður bara settur á skattur til að taka á þeim bótum.“
„Hvaða fjármálaráðherra var það,“ spyr Frosti.
„Bjarni Benediktsson. Ef hlífiskildi er haldið yfir ráðherrum eða því framkvæmdavaldi sem gengur svona fram, nú þá munu fleiri gera það. Þá er ekki til neins að setja lög. Það hefur afleiðingar fyrir okkur sem einstaklinga ef við förum gegn lögum. Það á ekkert annað að eiga við um pólitík. Augljóst skaðabætur. Það er er augljóst. Það er búið að viðurkenna að lög voru brotin – umboðsmaður Alþingis staðfesti það,“ segir Heiðrún Lind en að tíminn verði að leiða í ljós allt hvað varðar skaðabótagreiðslu ríkisins til Hvals hf.
„Það verður að koma í ljós. Hvalur er búinn að senda erindi til ríkislögmanns um þessar skaðabótakröfur. Til samtals við ríkislögmann um lyktir þess máls. Ég vona að ríkið sýni núna smá iðrun og láti ekki fyrirtækið og starfsmenn fara í þá píslargöngu að fara í gegnum dómskerfið í nokkur ár til þess að fá skaðabætur greiddar.“