Ríkharð Óskar Guðnason eða Rikki G, útvarps- og íþróttafréttamaður, er í einlægu og opinskáu viðtali við Götustrákana á hlaðvarpsveitunni Brotkast en þar ræðir hann meðal annars þegar hann fékk örlagaríkt símtal um að faðir hans hefði fallið frá en hann lést árið 2022.
„Ég kem fyrir horn þarna inni hjá henni þar sem horft er á sjónvarpið og þá bara sé ég að hann er farinn“
„Þetta var 23. september og ég er á leiðinni á handboltaleik. Ég átti að fara að lýsa leik Vals og FH. Pabbi var svo duglegur að koma með mér á leikina – hann er Valsari og ég líka. Ég átti að sækja hann seinnipartinn og þá er hann heima hjá ömmu, sem sagt mömmu sinni sem er enn á lífi. Þá fæ ég símtal frá henni og það fyrsta sem ég heyri í símanum er: „Ég held að pabbi þinn sé dáinn.“ en hún er náttúrulega gömul þannig að ég bara hvað meinaru?“ segir Rikki G sem var á þessu augnabliki staddur í umferð í Reykjavík.
Glímdi við bakkus í mörg ár
„Ég er að reyna að vekja pabba þinn og hann bara vaknar ekki segir amma við mig. Ég man ekkert hvernig ég keyrði þangað. Ég bruna bara til hennar og hún opnar fyrir mér. Ég kem fyrir horn þarna inni hjá henni þar sem horft er á sjónvarpið og þá bara sé ég að hann er farinn. Ég trúði þessu ekki – ég hélt að hún hefði bara ekki verið að kalla nógu hátt á hann en nei, þá var hann bráðkvaddur blessaður. Þá kom í ljós að þetta var bráðahjartabilun og mikið til komið vegna lífernis hans í gegnum ævina,“ segir Rikki G sem kynntist ekki föður sínum almennilega fyrr en árið 2014 – þegar dóttir hans fæddist.
Faðir Rikka hafði lengi glímt við bakkus og á þeim tímabilum í lífi hans hafði Rikki reynt að halda sig fjarri.
„Þó hann hefði verið búinn að snúa lífi sínu við að þá kannski græddi hann aukaárin á því en miðað við hvernig þetta var búið að vera alla hans ævi að þá fékk hann ekki nema 67 ár. Hann hefði kannski farið fyrr ef hann hefði ekki tekið til í lífi sínu. Þannig að ég segi alltaf að það er aldrei of seint. Hann var illa farinn, bæði miðtaugakerfið og svo líffærin öll yfir höfuð,“ segir Rikki sem þakkar fyrir árin sem hann fékk með honum.
Fæðing dóttur hans breytti sambandinu
„Árið 2014 þegar stelpan mín fæðist þá næ ég til hans loksins og þá byrjar okkar samband í fyrsta skiptið þegar ég er orðinn 29 ára gamall. Þá næ ég að koma honum í meðferð með góðu, hann var þá búinn að vera edrú – byrjar að vera edrú þegar hann og mamma skilja ´93 – fer í góða vinnu og á góðan tíma, góðan sprett til svona 2000. Þá fellur hann og það eru slæm 3 eða 4 ár og þá reyndi ég að halda mig frá og svo nær hann góðum tíma og svo fellur hann aftur. Undir restina þarna 2014 að þá er hann kominn á mjög slæman stað og þá hélt ég að hann ætti ekki mikið eftir sem hann átti ekki. Ég næ einhvern veginn að opna augu hans,“ segir Rikki og bætir við að faðir hans hafi í gegnum ævina eignast fullt af góðu fólki í SÁÁ.
„Ég hef engum sagt þetta en ég var kominn á mjög slæman stað heima í drykkju“
„Já, hann átti fullt af góðu fólki að í SÁÁ og það var tekið vel utan um hann og hann náði sér svona nokkurn veginn strax á strik – alveg edrú. Byrjar að rækta sambandið við mig, konuna mína og barnið mitt og fær með okkur tæp tíu ár af fallegu lífi. Eftir á að hyggja í dag að þá skildi ég ótrúlega fallega við hann, faðmlag alltaf en hann var alltaf snertifælinn og var ekki mikið að gefa af sér en það breyttist allt. Hann mýktist með þessu og þroskaðist en það sem ég held að hafi síðan klárað þetta var að hann var orðinn slappur og byrjaður að leita í flöskuna aftur til að deyfa eitthvað og ég held að það hafi síðan orðið honum um megn.“
Var sjálfur farinn að drekka ótæpilega
Sjálfur segist Rikki ekki alveg búinn að að átta sig á þessu öllu. Þetta hafi þó vakið hann til lífsins því hann hafi sjálfur þurft að taka til í sínu lífi út af drykkju sem var orðin að vandamáli. Eitthvað sem hann hafi aldrei rætt opinberlega áður.
„Á þeim tíma gat ég sótt í pabba og hann gat miðlað sinni reynslu“
„Ég er barn mjög slæms alkahólista og ég hef þurft að vera mjög meðvitaður líka og þurft að hugsa minn gang. Ég hef engum sagt þetta en ég var kominn á mjög slæman stað heima í drykkju, farinn að drekka heima við ekkert tilefni fram á nætur og það var farið að hafa áhrif á fjölskyldulífið. Ég þurfti ekki meðferð því ég náði að vakna og breyta ákveðinni hugsun og vera meðvitaður – koma því í hausinn á mér að ef þú getur neytt áfengis að þá ertu að gera það til að skemmta sér, ekki til að deyfa eitthvað eða fara í felur með eitthvað því þá ertu kominn með vandamál og þannig var það orðið hjá mér. Á þeim tíma gat ég sótt í pabba og hann gat miðlað sinni reynslu,“ segir Rikki sem tengir drykkjuna við mikið álag og fjárhagsáhyggjur.
Kominn snemma heim eftir gigg í dag
„Já það var mikið álag. Stóð ekki vel á fjárhagslega, nýlega komin með íbúð og miklar afborganir – var mikið að plötusnúðast á næturnar á skemmtistöðum og svo hélt drykkjan áfram eftir að ég var kominn heim. Núna þegar ég er að skemmta í þessum brúðkaupum að þá er ég kominn heim klukkan eitt.“
Einstaklega fallegt og einlægt viðtal við Rikka G. hjá Götustrákunum á hlaðvarpsveitunni Brotkast. Hægt er að hlusta og horfa á allt viðtalið með því að skunda inn á vefsíðu Brotkast en með góðfúslegu leyfi birtum við smá brot úr viðtalinu hér fyrir neðan þar sem Rikki G. talar um þetta örlagaríka símtal sem hann fékk og sambandið við föður sinn sem hann saknar mikið.