Stofnfundur AA-samtakanna á Íslandi var haldinn 16. apríl 1954, sem bar upp á föstudaginn langa. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að afmæli AA-samtakanna á Íslandi miðast við föstudaginn langa ár hvert. Í dag eru starfandi um 350 deildir innan AA-samtakanna um land allt. Hver þessara deilda heldur að minnsta kosti einn fund í viku. Sem þýðir að Íslendingar eru örugglega einhverskonar heimsmeistarar í AA miðað við höfðatölu.
Opinn hátíðarfundur AA-samtakanna verður haldinn í Háskólabíói föstudaginn langa 29. mars 2024 kl. 20:00.
AA-fólk og gestur frá Al-anon, sem eru samtök aðstandenda alkóhólista tala á fundinum. Allt fundarefnið verður kynnt jafnharðan á táknmáli. Húsið verður opnað kl. 19:00 og það verður kaffi á könnunni.
Í ár fagna AA-samtökin 70 ára afmæli sínu.
„Komið og gleðjist með okkur“ segir í tilkynningu frá Landsþjónustunefnd AA-samtakanna á Íslandi.
Öll velkomin!