Auglýsing

Tveir virkir gígar og landris heldur áfram í Svartsengi

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram og enn eru tveir gígar virkir eins og undanfarna daga. Nyrðri gígurinn er stærri og virðist megnið af hraunflæðinu koma frá honum eins og sést á eftirfarandi mynd sem tekin var miðvikudagskvöldið 3. apríl. Hraun rennur áfram til suðurs frá gígunum ofan á hraunbreiðu sem myndaðist fyrstu daga gossins. Þá voru engin greinileg merki um framrás hrauns við varnargarða norðan Grindavíkur, Suðurstrandarveg eða Melhólsnámu.

Á bylgjuvíxlmynd sem sýnir aflögun frá 18. mars til 3. apríl sést að land hefur risið um 3 cm í Svartsengi á því tímabili. Það er töluvert hægara landris en mældist fyrir þau eldgos eða kvikuhlaup sem orðið hafa á síðustu mánuðum.

Landris heldur áfram

Út frá GPS mælingunum á sama tímabili virðist hraði landrissins hafa verið breytilegur en erfitt getur verið að meta breytingar frá degi til dags út frá þeim. Ef horft er á GPS mælingar yfir allt tímabilið sem bylgjuvíxlmyndin sýnir sést að samræmi er í niðurstöðum beggja mælinga. Landris mælist í Svartsengi á meðan eldgosinu stendur en það hefur ekki sést í þeim atburðum sem hafa orðið á síðustu mánuðum á Sundhnúksgígaröðinni. Það er vísbending um að kerfið sé opið og kvika streymi áfram af miklu dýpi undir Svartsengi og þaðan til yfirborðs í Sundhnúksgígaröðinni.

Há gildi brennisteinsdíóxíðs í kringum eldgosið

Gasmælingar sem framkvæmdar voru á þriðjudaginn síðasta, 2. apríl, áætla að um 37 – 41 kg/s af SO2 flæði úr gígunum. Áfram mælast tímabundið há gildi brennisteinsdíóxíðs í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Gaslosun frá eldgosinu er líkleg til að valda mengun á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Spáð er austan 5-10 í dag (föstudag) og berst mengunin þá til vesturs, m.a. yfir Svartsengi. Norðaustan 5-10 seint í dag og berst mengunin þá til suðvesturs og mögulega yfir Grindavík um tíma. Gasdreifingarspá hér.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing