„Ég er semsagt hlynnt rýmra tjáningarfrelsi heldur en ekki. Þannig að ég er bara þeirrar skoðunar að ef þú hefur, mér finnst svo vont að nota þetta orð, en vonda skoðun eða skoðun sem er ekki samfélagslega viðurkennd þá verði henni best útrýmt með því að þú viðrir hana og helst mjög hátt og takist þá á við samfélagið um það,“ segir Diljá Mist, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í viðtali við Frosta Logason á hlaðvarpsveitunni Brotkast. Hún hefur sterkar skoðanir á tjáningarfrelsinu og nefnir eina dæmisögu frá háskólaárunum.
„Ég er semsagt í félagsskap sem heitir Deiglan. Hægri-félagsskapur þar sem að margir hverjir hafa verið í Vöku í háskólanum. Fyrir mörgum árum síðan þá var sem sagt hópur úr Deiglunni sem var að stýra Vöku á sínum tíma og það kom upp þetta mál, sem ég las síðar um í háskólanum, sem vörðuðu rasísk ummæli. Það voru stofnuð held ég formleg félagasamtök þjóðernissinnaðra Íslendinga sem höfðu uppi mjög niðrandi ummæli um til dæmis svart fólk. Þau fengu þá hugmynd í háskólanum að bjóða þessum félagsskap að koma og tala á málfundi uppi í háskóla. Þeir þekktust boðið og mættu til leiks. Svo fara þeir yfir hugmyndir sínar um yfirburði hvíta kynstofnsins og voru náttúrulega bara fávitar. Þarna er fullur salur af háskólastúdentum að hlusta á þessa fávita viðra skoðanir sínar eins og þeir hafa fullt frelsi til og þeim er mætt með spurningum og umræðu. Þetta er heilbrigt,“ segir Diljá Mist og er Frosti því sammála.
Engin myndi fá að halda slíkt í dag
„Í dag að þá myndu þessir menn aldrei fá að stíga fæti inn í háskólann og ef það yrði auglýstur svona viðburður að þá yrði honum mótmælt, öskrað og æpt þar til hann yrði blásinn af,“ segir Frosti.
„Það sem þú ert að lýsa eru ofstækisfull viðbrögð og aðgerðir svona fámenns en mjög háværs hóps. Þú ert kannski mjög ósáttur við hann og þá ósjálfrátt ferðu að hópa þig með fólki sem hefur skoðanir sem þú hefur kannski óbeit á. Þetta aflagar og afbakar svo umræðuna. Við eigum að fá að takast á hvort við annað með frjálsum skoðanaskiptum. Ég dreg mörkin þar að ég tel að það eigi ekki að vera löglegt að hvetja til ofbeldis eða líkamsmeiðinga eða refsiverðrar verknaðar. Ég er alveg þeirrar skoðunar en ekki mikið meira en það. Leyfum fávitum að vera fávitar og mætum þeim í umræðunni,“ segir Diljá Mist en þegar Frosti bendir á þann möguleika að Katrín Jakobsdóttir og flokkur hennar gæti komið fram hertari löggjöf um hatursorðræðu þá segir hún að sú umræða hafi drabbast niður.
Ríkið er ekki handhafi sannleikans
„Ekki síst vegna þess að stjórnmálamenn eiga erfitt með að skilgreina hatursorðræðu og hvar mörkin eiga að liggja.“
„Gerir Katrín sér grein fyrir því,“ spyr Frosti þá á móti en Diljá Mist svarar því til að hún eigi erfitt með að svara fyrir hana. Frosti segir Katrínu sjá þetta afskaplega klippt og skorið. Hún bendir þá á að allir þeir sem vilja herða löggjöfina vilji fylgja henni á eftir með eftirliti af hálfu ríkisins.
„Það telur að það sé einhver lína sem ríkið eigi að merkja í sandinn og svo eigum við að vera með eftirlit og apparöt sem eiga að fylgja þessari línu eftir. Ef það er eitthvað sem við getum haldið fram og lært af sögunni er að ríkið er ekki handhafi sannleikans og við getum ekki brennt okkur á þessu aftur og aftur.“
Ef þú vilt horfa og hlusta á viðtalið við Diljá Mist í heild sinni að þá getur þú gert það með áskrift að hlaðvarpsveitunni Brotkast. Þar er að finna fjölmarga aðra þætti líkt og Götustráka, Harmageddon og nýjasta þáttinn sem heitir Blekaðir. Hér er stutt myndskeið úr viðtalinu við Diljá Mist.